Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Rúta með ferðamenn fór út af vegi í Biskupstungum

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Rúta á vegum ferðaþjónustufyrirtækisins Arctic Rafting fór út af vegi í Biskupstungum á sjöunda tímanum í kvöld. Lögreglan á Suðurlandi fékk tilkynningu um slysið laust fyrir klukkan sjö. Rútan var full af farþegum sem voru að koma frá Hvítá eftir flúðasiglingar. Enginn slasaðist alvarlega.

Þrennt var flutt á brott með þyrlu Landhelgisgæslunnar til Reykjavíkur að sögn Garðars Más Garðarssonar, varðstjóra hjá lögreglunni á Suðurlandi. Þyrlan var við vegaeftirlit á svæðinu en var ekki sérstaklega kölluð til.

Garðar segir í samtali við fréttastofu að ákveðið hafi verið að nýta það að þyrlan var á staðnum og flytja fólkið í bæinn. Auk þessa voru tveir futtir með sjúkrabíl til Reykjavíkur og fimm á sjúkrahúsið á Selfossi.

Brunavarnir Árnessýslu fluttu fjóra þangað sömuleiðis. Garðar segir engan hafa slasast alvarlega og að mun betur hafa farið en á horfðist. Nú sé verið að rannsaka hve margir voru í rútunni og hvað olli því að hún fór út af veginum. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV