Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Risapandan Huan Huan er orðin móðir

02.08.2021 - 03:41
Mynd með færslu
 Mynd: Then24
Risapöndunni Huan Huan fæddust tvíburar skömmu eftir miðnætti. Huan og maki hennar Yuan Zi dvelja í láni frá Kína í frönskum dýragarði. Forstjóri dýragarðsins gat ekki hamið gleðina þegar hann greindi frá fæðingunni enda eiga pöndur erfitt með að eignast afkvæmi.

Frá þessu er greint á fréttavefnum France24 en parið er eitt helsta aðdráttarafl Beauval-dýragarðsins í Saint-Aignan héraði.

Rodolphe Delord, forstjóri dýragarðsins, gat ekki hamið gleðina þegar hann tilkynnti um fæðinguna, sagði húnana fullkomna, fagurbleika, stóra og heilbrigða.  

Sérfræðingar segja pöndur eiga afar erfitt með að fjölga sér hvort sem það er í náttúrulegum heimkynnum eða í dýragörðum. Þeir segja fáar pöndur finna hjá sér löngun til kynmaka og viti jafnvel ekki hvað gera skuli þótt neistinn kvikni.

Til að flækja málin enn frekar kviknar löngun kvenkynspanda aðeins einu sinni á ári, tvo til fjóra sólarhringa í senn. Því gladdi það starfsfólk dýragarðsins mjög þegar parið náði saman í mars síðastliðnum, og ávöxtur þess fundar fæddist í nótt. 

Eldra systkini þeirra nýfæddu er orðið fjögurra ára, heitir Yuan Meng, stór og stæðileg panda og sú fyrsta sem fæddist í Frakklandi. Yuan Meng verður fluttur til Kína síðar á þessu ári þar sem talið er að um 1.800 pöndur lifi í náttúrunni og aðrar fimmhundruð í dýragörðum. 

Tvíburunum nýfæddu verður ekki gefið nafn fyrr en eftir hundrað daga en Peng Liyuan eiginkona Xi Jinping Kínaforseta fær að ákveða hvað þeir eigi að heita.