Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Nær allir bólusettir hafa sloppið við alvarleg einkenni

02.08.2021 - 15:37
epa09071208 Doctors and nurses wearing protective suits and masks at work inside the intensive care unit of the Bolognini hospital in Seriate, northern Italy, 13 March 2021. Most of Italy is expected to be a COVID-19 red zone next week, due to a sharp rise in contagion and new rules the government is expected to apply on how to classify regions in the nation's tiered system of coronavirus-linked restrictions.  EPA-EFE/FILIPPO VENEZIA
Gjörgæsludeild sjúkrahúsds í Seriate á Ítalíu. Mynd: EPA-EFE - ANSA
Meðal bólusettra Bandaríkjamanna hafa 99,999% hvorki þurft á sjúkrahúsinnlögn að halda né látist af völdum veirunnar. Þetta sýna nýjustu útreikningar bandarísku sóttvarnastofnunarinnar, CDC, sem byggðir eru á tölum frá 26.júlí en voru birtir um helgina.

Bandaríska fréttaveitan CNN greinir frá niðurstöðunum en þær sýna vægi bólusetninga í baráttunni gegn COVID-19. 

Flest andlát af völdum veirunnar meðal óbólusettra

Bandaríska sóttvarnastofnunin hafði, þann 26.júlí, skráð hátt í 6.600 alvarleg veikindi af völdum COVID-19-sýkingar meðal bólusettra þar í landi. Þeirra á meðal voru 6.239 sjúkrahúsinnlagnir og 1.263 andlát. Á sama tíma voru 163 milljónir Bandaríkjamanna fullbólusettar. 

Með því að rýna í ofangreindar upplýsingar og deila fjölda alvarlegra tilfella með fjölda bólusettra í Bandaríkjunum komst sóttvarnastofnun að eftirfarandi: aðeins 0,004% fullbólusettra fengu alvarleg einkenni og þurftu á sjúkrahúsinnlögn að halda. Þá hafa 0,001% fullbólusettra látist af völdum COVID-19 í Bandaríkjunum, á meðan 99,999% gerðu það ekki. Niðurstöðurnar eru einna helst vísbending um vægi bólusetninga og eru þær notaðar sem slíkar. 

Bólusettir jafnlíklegir og óbólusettir að bera smit

Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna hefur undanfarna mánuði lagt áherslu á að rýna í hlutfall alvarlega veikra ef miðað er við fjölda bólusettra. Þá er jafnframt bent á að bólusettir séu ólíklegri til að smitast af kórónuveirunni en óbólusettir. En smitist þeir, séu þeir nær alveg jafnlíklegir til þess að smita út frá sér og óbólusettir. Þetta síðastnefnda er víða að koma í ljós um þessar mundir þegar delta-afbrigðið er í miklum vexti í heiminum. 

Fréttin hefur verið uppfærð eftir leiðréttingar Kristjönu Ásbjörnsdóttur, lektors í faraldsfræði við Miðstöð í Lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands, sem birtust á Vísi.