Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Minnismerki afhjúpað við höfnina í Beirút

Líkneski til heiðurs þeim sem fórust í sprengingunni miklu í Beirút var afhjúpað 2. ágúst 2021. Höfundur er Nadim Karam.
 Mynd: REUTERS/Mohamed Azakir
Minnismerki var afhjúpað við höfnina í Beirút í dag, til heiðurs þeim sem fórust í sprengingunni miklu fyrir ári. Líkneskið er 25 metra hátt, í mannsmynd og er gert úr hlutum bygginga sem eyðilögðust í sprengingunni.

Höfundur verksins er líbanski arkítektinn og listamaðurinn Nadim Karam, sem búsettur er í borginni.

Reuters greinir frá að Karam segist hafa viljað sýna fjölskyldum þeirra sem fórust virðingarvott með verkinu en gerð þess var fjármögnuð af allmörgum einkafyrirtækjum.

Framtaki hans hefur ýmist verið fagnað eða það gagnrýnt með þeim rökum að réttlæti yrði að ná fram að ganga áður tekið væri til við að reisa minnismerki.

Karam hefur verið sakaður um að vinna með ríkisstjórninni en hann ber það af sér og segir tilgang sinn hafa verið að varpa ljósi á sorgina sem ríkir í Berút og örin sem borgin ber.

Á þriðja hundrað fórst í sprengingunni 4. ágúst í fyrra, þúsundir slösuðust og stórir hlutar borgarinnar eru rústir einar. Enn hefur enginn verið ákærður í málinu og enginn embættismaður þurft að sæta ábyrgð.

Fyrr í sumar fóru tugir alþjóðlegra mannréttindasamtaka fram á að Sameinuðu þjóðirnar rannsaki ástæður sprengingarinnar þar sem heimamenn virtust ekkert ætla að gera til að varpa ljósi á málið.