Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hver nær á þing?

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra, Birgir Ármannsson og Brynjar Níelsson næðu öll inn á þing í Reykjavík, samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallup sem birtur var fyrir helgi. Þetta sést þegar niðurstöður Þjóðarpúlsins eru fullgreindar og skipting jöfnunarþingsæta eftir kjördæmum skoðuð.

Áður hafði verið greint frá niðurstöðum könnunarinnar og skiptingu þingsæta eftir flokkum, en ekki hafði þá verið skoðað hvar hvaða flokkur fengi sín jöfnunarsæti.

Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, og Gísli Rafn Ólafsson Pírati fá jöfnunarsæti í Kraganum, og Sósíalistaflokkurinn fengi þrjá þingmenn, allt jöfnunarþingmenn, en þar er einn í hvoru Reykjavíkurkjördæmi og einn í Norðausturkjördæmi.

Mjög litlar breytingar þarf til þess að hnika útdeilingu jöfnunarsæta innan flokka, þ.e. í hvaða kjördæmi þingflokkur fær jöfnunarsætum sínum útdeilt, útskýrir Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, en hann tók tölurnar saman fyrir fréttastofu með hjálp reiknivélar Landskjörstjórnar.

Svo mikil er óvissan að það að ætla sér að skoða hvar jöfnunarþingsætin lenda verður aldrei annað en samkvæmisleikur þegar niðurstöður skoðanakönnunar eru lagðar til grundvallar.

Þetta þekkja áhugamenn um kosningar vel enda alsiða að þingmenn sama flokks skiptist á því að mælast inni fram eftir kosninganóttu eftir því sem nýjar tölur berast.

Hvernig er þingsætum úthlutað?

Ekki er úr vegi að rifja upp hvernig þingsætum er úthlutað.

Í hverju kjördæmi er tiltekinn fjöldi kjördæmakjörinna þingsæta, sem sjá má á meðfylgjandi korti, samanlagt 54.

Því til viðbótar eru níu jöfnunarþingsæti. Eitt í landsbyggðarkjördæmunum (Suður, Norðvestur og Norðaustur) en tvö í kjördæmum höfuðborgarsvæðisins (Rvk-N, Rvk-S og Suðvestur).

Kjördæmakjörin sæti
Úthlutun kjördæmakjörinna þingsæta byggist aðeins á niðurstöðum úr því tiltekna kjördæmi. Notast er við aðferð sem kennd er við belgíska lögfræðinginn Victor D'Hondt. Sú aðferð er ekki óumdeild enda þykir hún hygla stærri flokkum, sem jafnan hafa færri atkvæði á bak við hvern þingmann.

Í ofanálag eru þingsæti í hverju kjördæmi fá og því þarf nokkurt fylgi til að fá úthlutað kjördæmakjörnu þingsæti. Þannig geta minni flokkar lent í því að fá engan kjördæmakjörinn þingmann þrátt fyrir að eiga með réttu heimtingu á þingsætum á landsvísu.

Þriðji skekkjuvaldurinn er sá að kjördæmakjörnir þingmenn í landsbyggðarkjördæmum eru fleiri miðað við höfðatölu en á höfuðborgarsvæðinu.

Jöfnunarsæti
Úr þessu er leyst með fyrrnefndum jöfnunarþingsætum. Þeim er útdeilt þegar búið er að skipta niður öllum kjördæmakjörnu sætunum, og renna þau til þeirra flokka sem hafa fengið fæsta kjördæmakjörna þingmenn á landsvísu miðað við fjölda atkvæða á landsvísu.

Aftur er reikniregla D'Hondts notuð, en þó er gerð krafa um að flokkur fái minnst fimm prósent greiddra atkvæða til að eiga rétt á sæti.

Ef miðað er við niðurstöður Þjóðarpúlsins renna öll jöfnunarsætin til flokka í stjórnarandstöðu, í þessari röð:

1. Sósíalistaflokkurinn
2. Sósíalistaflokkurinn
3. Píratar
4. Sósíalistaflokkurinn
5. Píratar
6. Viðreisn
7. Samfylkingin
8. Píratar
9. Miðflokkurinn

Óvissan í útreikningi á fjölda jöfnunarsæta er ekki meiri en gengur og gerist í skoðanakönnunum.

Hins vegar vaknar þá spurningin hvar flokkur á að fá jöfnunarsætinu úthlutað. Í hvaða kjördæmi á fyrsti jöfnunarþingmaður Sósíalista að koma?

Þetta er leyst á þann veg að flokkur, sem á rétt á jöfnunarsæti, fær það í því kjördæmi þar sem hann bar skarðastan hlut frá borði, þ.e. fékk fæst þingsæti miðað við atkvæðahlutfall í kjördæminu.

Að því gefnu að ekki sé búið að úthluta sætinu til annars flokks. Flokkur getur lent í því að eiga jöfnunarsætið mest skilið í einu kjördæmi frekar en öðru, en fá þó sætið annars staðar á landinu þar sem annar flokkur hafði þegar tryggt sér jöfnunarsæti þess kjördæmis.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Hér kemur óvissan inn. Oft þarf ekki nema örlitlar breytingar á fylgi flokks til að kjördæmi jöfnunarsætis hans breytist. Við það riðlast útreikningar allra jöfnunarsæta sem fylgja.

Ólafur bendir til að mynda á að hann hafi sjálfur prófað að reikna út skiptingu jöfnunarþingsæta með eilítið breyttum forsendum um kjörsókn í hverju kjördæmi. Við það hafi fjögur jöfnunarsæti breyst innan flokka.

Því verður ekki undirstrikað nægilega að skipting jöfnunarþingsæta milli kjördæma, byggt á skoðanakönnun, er fyrst og fremst dægradvöl, en þó ekki verri en hver önnur.

Ákall um fjölgun jöfnunarþingsæta

Sem fyrr segir eru jöfnunarþingsætin níu og þeim ætlað að leiðrétta þá skekkju sem verður til vegna kjördæmaskiptingarinnar. Það hefur gengið ágætlega frá því þeim var komið á árið 1987.

Allar götur til ársins 2013 var þingsætaskipting flokka sú sama í öllum kosningum og hún hefði verið ef landið væri eitt kjördæmi. Hér er þá miðað við að eftir sem áður væri notast við aðferð D'Hondts til að reikna út þingmannafjölda og að fimm prósenta þröskuldur yrði notaður.

Eins og Ólafur Þ. Harðarson hefur þó ítrekað bent á hefur þetta ekki gengið eftir í síðustu þrennum kosningum, 2013, 2016 og 2017.

Í kosningunum 2013 fékk Framsóknarflokkur einn þingmann sem annars hefði komið í hlut Vinstri grænna.

Í kosningunum 2016 fengu Vinstri grænir einnig einum þingmanni færri en raunin hefði verið ef landið væri eitt kjördæmi. Í þetta sinn rataði sætið þó til Sjálfstæðisflokks. Það var adrifaríkt enda nægði það til að hægt væri að mynda ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar sem hafði tæpasta mögulega meirihluta, 32 þingmenn af 63.

Í kosningunum 2017 fékk Framsóknarflokkurinn eitt þingsæti sem annars hefði ratað til Samfylkingar.

Með því að fjölga jöfnunarsætum væri unnið gegn þessari þróun. Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa vakið máls á þessu, en talað fyrir daufum eyrum.