Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hlýjasti júlí á Norður- og Austurlandi frá upphafi

02.08.2021 - 10:59
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Nýliðinn júlímánuður var sá hlýjasti um nær allt norðan- og austanvert landið frá upphafi mælinga. Meðalhiti fór yfir 14 stig á nokkrum veðurstöðvum en ekki er vitað um annað eins meðalhitastig hérlendis.

Þetta kemur fram í nýjustu bloggfærslu Trausta Jónssonar, veðurfræðings. Í henni kemur jafnframt fram að á flestum spásvæðum landsins hafi meðalhitinn í júlí verið sá hæsti á þessari öld. En á Suðurlandi, við Faxaflóa og við Breiðafjörð voru hitatölur mánaðarins þó sambærilegar og síðustu tíu ár.  

Yfir tuttugu stiga hiti alla daga mánaðarins nema einn

Þá er vert að benda á að hiti komst yfir tuttugu stig einhvers staðar á landinu alla daga mánaðarins nema einn. Það er nýtt met og þykir slíkt veðurfar óvenjulegt hér á landi. Mest er vitað um 24 slíka daga í einum mánuði en það var í júlí árið 1997. 

Telur líkur á nýju sólskinsstundameti fyrir norðan

Meðalhiti í byggðum landsins í júlímánuði var 11,7 stig og er það jafnframt næsthæsti meðalhiti í júlí í manna minnum. Trausti Jónsson telur líklegt að sólskinsstundamet verði slegið á Akureyri og við Mývatn en búist er við endanlegum tölum um tíðarfar mánaðarins frá Veðurstofunni á næstu dögum. 

Það er því ljóst að veðurgæðum hefur verið nokkuð misskipt milli landsmanna að undanförnu. Í veðurhappdrætti júlímánaðar báru Norður- og Austurland sigur úr býtum.

Katrín María Timonen
Fréttastofa RÚV