Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Forseti Afganistan gagnrýnir brottflutning herliðs

02.08.2021 - 12:40
epa09387634 A view of a market that was closed over security fears as Taliban attacked parts of the city in Lashkar Gah, the provincial capital of Helmand, Afghanistan, 02 August 2021.The Taliban on 27 July condemned the United States' decision to continue offering air support to Afghan security forces even after the withdrawal of international troops from the country, which has allowed the insurgents to make rapid territorial gains. The withdrawal of US and NATO troops, set to be completed by late August, was part of the agreement signed last year in Doha by Washington and the Taliban.  EPA-EFE/WATAN YAR
Frá borginni Lashkar Gah í Helmand-héraði. Mynd: EPA-EFE - EPA
Stjórnarherinn í Afganistan reynir nú með öllum mætti að koma í veg fyrir að Talibanar leggi undir sig höfuðborgir þriggja héraða landsins. Forseti Afganistan segir þá ákvörðun að kalla alþjóðlegt herlið frá landinu aðalástæðuna fyrir auknum átökum.

Frá því í maí, þegar NATO hóf að flytja herlið frá Afganistan, hafa hörð átök staðið yfir milli Talibana og stjórnarhersins. Talibanar leggja nú áherslu á að ná til sín þremur héraðshöfuðborgum, og sækja nú mest að borginni Lashkar Gah í Helmand-héraði. Sú borg er mikilvæg, meðal annars þar sem um hana liggja mikilvægir vegir. Stjórnarherinn hefur aukið viðveru sína verulega í borginni vegna ásóknar Talibana.

Átökin hafa haft mikil áhrif á íbúa. Rafmagnið fer reglulega af, fjarskipti liggja niðri og öll lyf eru ófáanleg.

Ashraf Ghani forseti landsins sagði á þingi í morgun að ástæðan fyrir auknum átökum væri að ákvörðunin um að kalla alþjóðlegt herlið til baka hefði verið tekin í fljótfærni. Hann hefði varað stjórnvöld í Bandaríkjunum við því að þessi ákvörðun myndi hafa afleiðingar. 

Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna tilkynnti í dag að í ljósi aukinnar sóknar Talibana í landinu væri unnið að því að taka við nokkur þúsund afgönskum flóttamönnum til viðbótar. Þeir sem myndu bætast við hafi unnið með bandarískum fjölmiðlum og samtökum og í túlkaþjónustu. 

Bandaríkjastjórn heldur sig hins vegar við áætlanir um brottflutning og telur sig hafa gert allt til að koma á stöðugleika í landinu. AFP-fréttastofan hefur hins vegar eftir Nishank Motwani, áströlskum sérfræðingi í málefnum Afganistan, að ef Talibanar nái borgum á sitt vald verði brottflutningsins minnst sem eins mesta klúðurs í utanríkismálum Bandaríkjanna.

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV