Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

YouTube bannar sjónvarpsstöð Murdoch vegna falsfrétta

01.08.2021 - 08:57
Mynd með færslu
 Mynd: Rego Korosi - Flickr
Streymisveitan YouTube tilkynnti í dag að sjónvarpsstöðinni Sky News í Ástralíu verði bannað að hlaða efni inn á síðuna í eina viku, vegna falsfréttaflutnings af kórónuveirunni. 

Í yfirlýsingu frá YouTube segir að búið sé að yfirfara reglur um dreifingu misvísandi upplýsinga af COVID-19 á veitunni vegna þeirra afleiðinga sem slíkt getur haft fyrir almenning.

Nærri tvær milljónir manna um allan heim fylgja Youtube-rás Sky News frá Ástralíu, sem er í eigu fjölmiðlarisans Ruperts Murdoch. Þar hefur meðal annars verið fjallað um ógagnsemi bólusetninga við COVID-19 og spurt hvort heimsfaraldur sé raunverulega í gangi. Efninu hefur víða verið dreift á samfélagsmiðlum.

Í yfirlýsingu frá sjónvarpsstöðinni er bannið gagnrýnt. Fjölmiðillinn starfi eftir ströngum ritstjórnarreglum og vilji skapa umræðu þar sem mörg sjónarmið fái að koma fram.

YouTube er með reglu um vikubann til notenda eftir fyrsta brot, annað brot innan 90 daga leiðir til tveggja vikna banns og við þriðja brot er bannið ótímabundið.