Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Verulega erfið nótt á tjaldsvæðum á Akureyri

01.08.2021 - 13:06
Mynd með færslu
 Mynd: Akureyri.is - RÚV
Talsvert var um það síðustu nótt að fólk í leit að gleðskap reyndi að komast inn á tjaldsvæði sem voru orðin full og þar af leiðandi lokuð fyrir frekari gestagangi í samræmi við fjöldatakmarkanir. Tryggvi Marínósson, framkvæmdastjóri tjaldsvæðanna á Akureyri, segir nóttina hafa tekið á. 

Tæplega 800 gestir voru á tjaldsvæðinu að Hömrum, að sögn Tryggva. Margir eru á Akureyri sem stendur og þar á meðal fólk í leit að tjaldsvæði, gleðskap eða hvoru tveggja.  

„Við lokuðum inn á tjaldsvæðið hér klukkan fjögur í gær og líka á Þórunnarstrætinu og tókum í kjölfarið ekki inn fleiri gesti.“ Tryggvi útskýrir að vegna samkomutakmarkana þurfi að fylgjast vel með hverjir séu á tjaldsvæðunum og þangað megi gestir og gangandi ekki koma og fara eins og þeim sýnist. 

„Við lentum í því í gærkvöld og líka aðeins á föstudagskvöld að það flykktist hingað fólk sem vildi fara í partí hérna eins og á útihátíð, og eins kom fólk innan úr Kjarnaskógi, það var stórt partí þar, sem komu allt í einu inn á tjaldsvæðið. Þannig að þetta var verulega erfið nótt, þannig lagað séð.“ 

Aðspurður hvort kalla hafi þurft til lögreglu segir hann svo vera. „Jú, við höfðum samband við lögregluna en reynum nú að sjá sem mest um þetta sjálf og vorum með sjö, átta manns í þessu, fram undir morgun.“ 

Tryggvi segir ungmenni hafa verið áberandi í þessari ásókn í nótt en þó hafi ekki eingöngu verið um ungt fólk að ræða. „Þeir sem voru helst að reyna að komast inn á svæðið voru ungmenni en það voru hérna líka hópar af fullorðnu fólki sem við þurftum að hafa afskipti af vegna hávaða og láta, og það ítrekað.“  

Tryggvi bendir þó á þarna sé um undantekningar að ræða. Langflestir tjaldgestir séu til friðs. „Þessir krakkar, þau eru til friðs þannig lagað séð, þó þau séu með hávaða og drykkjulæti.“