Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Tvær innlagnir á spítala í gær

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Óbólusettir komufarþegar fá ekki lengur að fara í skimunarsóttkví í farsóttarhúsum og segir forstöðumaður húsanna að það létti verulega á álaginu. 83 greindust með kórónuveiruna innanlands í gær.

Af þeim 83 sem greindust með COVID-19 í gær voru 42 í sóttkví. Eitt smit greindist á landamærunum. Fimm daga þar á undan höfðu vel yfir hundrað smit greinst daglega en á það ber að líta að færri sýni voru tekin í gær. Alls eru tólf hundruð tuttugu og sex í einangrun hér innanlands, tæplega tvö þúsund og tvö hundruð eru í sóttkví og rúmlega þúsund til viðbótar eru í skimunarsóttkví.

Tveir lögðust inn á spítala í gær vegna einkenna og liggja nú alls tólf manns inni á Landspítalanum, þar af tveir á gjörgæsludeild.  Alls hafa 19 manns þurft að leggjast inn á spítala í þessari bylgju faraldursins.

Farþegar í skimunarsóttkví bjargi sér sjálfir

Það er enn álag á farsóttarhúsum og þar eru á þriðja hundrað manns í einangrun. „Síðasti sólarhringur hefur verið eins og sólarhringarnir þar á undan og búið að vera mikið að gera. Hins vegar er líklega ljóst að færri hafa farið í sýnatökur í gær þannig að við vorum að fá færri fyrirspurnir til okkar varðandi einangrunarpláss en þó eru 230 í einangrun hjá okkur núna. Svo erum við með 167 einstaklinga sem eru hér í sóttkví eða skimunarsóttkví en stærsti hluti þeirra verður síðan framvegis að redda sér sjálfur, segir Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður farsóttarhúsa.

Gylfi vísar þar í nýjar reglur sem taka gildi á næstu dögum. Hingað til hafa óbólusettir farþegar átt þess kost að dvelja í fimm daga skimunarsóttkví eftir komu, þeim að kostnaðarlausu. Heilbrigðisráðherra hyggst breyta reglugerð á þann veg að einungis þeir sem þurfa að fara í einangrun geti nýtt sér farsóttarhúsin.

Mikil og jákvæð breyting

Gylfi segir að þessar breytingar muni létta töluvert á álaginu. „Algjörlega. Við höfum verið með að meðaltali 150 til 180 ferðamenn í skimunarsóttkví og það segir sig sjálft að þegar þeir fara annað þá höfum við fleiri rými fyrir einangrun. Og þetta mun létta heilmikið á annarri starfsemi hjá okkur. Þannig að þetta verður mikil og jákvæð breyting hjá okkur.“

Bætir Gylfi við að með þessu verði komist hjá því að vísa fólki frá líkt og hefur þurft að gera þegar álagið er mikið.