Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Tregða til bólusetninga

Mynd: EPA-EFE / EPA
Yfirvöld í fjölmörgum ríkjum hafa áhyggjur af því að hægar gangi að bólusetja gegn COVID-19 eftir því sem fleiri hafa verið bólusettir. Víða hefur verið gripið til ráðstafana til að hvetja fólk til láta bólusetja sig. Bólusetningatregða er misjafnlega útbreidd, töluverður hluti Bandaríkjamanna, Frakka og Rússa, svo dæmi séu tekin, er tortrygginn eða andvígur bólusetningum. Hið sama gildir í mörgum ríkjum í Austur-Evrópu.

Bóluefni seld vegna lítilla eftirspurnar 

Í Rúmeníu gekk svo illa að fá landsmenn til að láta bólusetja sig að yfirvöld seldu Dönum vel á aðra milljón skammta af Pfizer-BioNtech-bóluefninu. Í sumum hlutum Bretlands ríkir einnig tortryggni og heilbrigðisyfirvöld á Norður-Írlandi senda þessa dagana sérstaka bólusetningabíla á íþróttaviðburði og aðra staði þar sem fólk safnast saman. Þá hafa Norður-Írar gripið til þess ráðs að auglýsa í sjónvarpi.

Biden skyldar ríkisstarfsmenn í bólusetningu

Í Bandaríkjunum tilkynnti Joe Biden forseti að ríkisstarfsmenn yrðu að láta bólusetja sig gegn covid. Að öðrum kosti eiga þeir að vera með grímu, fara reglulega í sýnatöku, halda fjarlægðarmörkum og fá ekki að ferðast vegna vinnu sinnar. Bandaríska ríkið er stærsti vinnuveitandi landsins, en sum stórfyrirtæki, eins og Google, hafa einnig gert starfsfólki sínu að fara í bólusetningu. Leikhús á Broadway í New York hafa ákveðið að einungis fullbólusettir megi sækja sýningar þar. Ástæða þess að hægt hefur á bólusetningu í Bandaríkjunum er líklega að stærstu leyti að langflestir þeirra sem enn eru óbólusettir vilji hreinlega ekki láta bólusetja sig.

Samfélagsleg ábyrgð að láta bólusetja sig

Í Þýskalandi er rætt um að bólusettir verði undanþegnir skerðingum sem fylgt hafa sóttvarnaráðstöfunum. Berlínarbúinn Uwe Köhler telur það samfélagsábyrgð að láta bólusetja sig. Köhler telur að erfitt verði að breyta viðhorfi andstæðinga bólusetninga, stjórnvöld skyldi fólk líklega í bólusetningu, en ekki fyrr en eftir þingkosningarnar í lok september.