Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Þingmaður varði nótt við þinghúsið í mótmælaskyni

Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Bandaríski fulltrúadeildarþingmaðurinn Cori Bush varði heilli nótt á tröppum þinghússins í Washington til að andæfa því að tímabundin stöðvun útburðagerða rennur út í dag.

Breska ríkisútvarpið greinir frá þessu á vef sínum. Þingið samþykkti á síðasta ári að fresta mætti útburði leigjenda í vanskilum en sú ráðstöfun var hluti af aðgerðum stjórnvalda tengdum kórónuveirufaraldrinum.

Talið var vænlegt að grípa til þess ráðs í ljósi þess að hætta gæti skapast á aukinni úbreiðslu COVID-19 ef fólk flykktist í hópum í athvörf eftir að hafa verið borið út.

Bannið við útburði gilti í ellefu mánuði en Joe Biden Bandaríkjaforseti hvatti fulltrúadeild þingsins til að framlengja það eftir að Hæstiréttur úrskurðaði að hann gæti ekki gert það sjálfur.

Andstæðingar framlengingar benda á að húseigendur eigi í basli með að greiða af lánum þegar þeir fái engar leigutekjur.

Undir miðnætti þegar bannið var við það að renna út sagðist Cori Bush telja að um sjö milljónir Bandaríkjamanna gætu búist við útburði vegna vangoldinnar leigu.

Bush, sem sjálf var eitt sinn heimilislaus, skrifaði á twitter að þingið hefði getað framlengt frestinn í gær, en þess í stað hefðu einhverjir þingmenn Demókrata fremur kosið að fara í frí.

Hún segist hafa ákveðið að sofa á tröppum þinghússins í því skyni að fá þingmennina til að snúa aftur og ljúka verkinu.

Öldungadeildarþingmaður Demókrata Elizabeth Warren og fulltrúadeildarþingmaðurinn Jim McGovern vörðu stund með Bush á tröppunum í gær til að lýsa yfir stuðningi við málstað hennar.

Cori Bush kveðst reiðubúin að dvelja aðra nótt á tröppunum þótt henni hafi lítið orðið svefnsamt í stólnum. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV