Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Nýtt farsóttarhús tekið til notkunar

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Freyr Arnarson - RÚV
Nýtt farsóttarhús var tekið til notkunar í dag og er það til húsa í Storm Hóteli við Þórunnartún. Þar með bætast 80 herbergi við þau sem farsóttarhúsin hafa þegar til afnota. Umsjónarmaður farsóttarhúsa Rauða krossins vonar að starfsemin sé þar með komin fyrir vind.

Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður farsóttarhúsa Rauða krossins segir í samtali við fréttastofu að þessi viðbót muni óneitanlega létta á þrýstingnum sem verið hefur á farsóttarhúsunum vegna plássleysis.

„Hins vegar er það náttúrulega þannig að til okkar hafa verið að leita allt upp í fimmtíu aðilar á dag þannig að áttatíu herbergi eru svo sem fljót að fara,“ segir Gylfi. Samtals eru 390 einstaklingar að dvelja á farsóttarhúsum sem stendur og stöðugt bætir í hópinn.

Storm Hótel var áður nýtt fyrir starfsfólk Landspítalans sem þurfti í vinnusóttkví. Það flyst héðan af á hótel í staðinn þegar þörf krefur. Storm Hótel sé aftur á móti þægilegt að nota undir einangrun því það sé beint á móti Fosshótel Reykjavík sem hefur verið notað fyrir fimm daga sóttkvína.

„Þetta hótel verður þá líka notað fyrir einangrun þegar reglugerðin tekur gildi. Nálægðin þarna á milli gerir okkur kleift að samnýta starfsfólk okkar á báðum stöðunum,“ segir Gylfi ennfremur.

Gylfi telur að þau pláss sem farsóttarhúsin hafa núna samanlagt eigi að duga fyrir starfsemina, og einkum þegar reglugerð heilbrigðisráðherra tekur gildi á þá leið að húsin verði að­eins fyrir þá einstaklinga sem þurfa að vera í einangrun. Hann á síður von á að bæta þurfi frekar við plássum.

„Ég myndi ekki telja það. Nú þegar þessi nýja reglugerð tekur gildi þá held ég að við séum komin fyrir vind.“