Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Lést í lögreglubíl í nótt

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Karlmaður á fertugsaldri lést í haldi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu skömmu eftir handtöku í nótt. Í tilkynningu frá lögreglunni segir að lögregla og sjúkralið hafi verið kölluð að húsi í austurborg Reykjavíkur í nótt vegna manns sem var sagður í annarlegu ástandi. Þaðan hafi lögregla flutt manninn á Landspítalann en hann misst meðvitund og farið í hjartastopp á leiðinni. Reynt var að lífga manninn við en án árangurs. Hann var úrskurðaður látinn skömmu eftir komu á sjúkrahúsið.

Í tilkynningu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir að embætti héraðssaksóknara hafi verið gert viðvart um andlátið í samræmi við lög. Lögreglan veitir ekki frekari upplýsingar um málið. 

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari segir að alvarleg atvik í störfum lögreglu séu sjálfkrafa tilkynnt til héraðssaksóknara óháð því hvort grunur sé um refsivert athæfi. Hún segir að rannsókn málsins sé á grunnstigi og því ekki ljóst hvort eitthvað refsivert hafi átt sér stað. Skýrslutökur hefjast á morgun og krufning verður gerð eftir helgi. 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV