Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Heimsmet í boðsundi og Dressel og McKeon með Ólympíumet

epa09383565 Caeleb Dressel of the United States of America (USA) on his way winning in the men's 50m Freestyle Final during the Swimming events of the Tokyo 2020 Olympic Games at the Tokyo Aquatics Centre in Tokyo, Japan, 1 August 2021.  EPA-EFE/Patrick B. Kraemer
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Heimsmet í boðsundi og Dressel og McKeon með Ólympíumet

01.08.2021 - 03:02
Bandaríski sundmaðurinn Calaeb Dressel vann sín fjórðu gullverðlaun á Ólympíuleikunum í Tókýó þegar hann sigraði í 50 m skriðsundi og Emma McKeon frá Ástralíu sigraði í 50 m skriðsundi kvenna og vann sitt þriðja gull í síðasta keppnishluta sundsins á leikunum. Bæði settu þau Ólympíumet. Bandaríkin settu svo heimsmet í 4x100 m fjórsundi karla.

Dressel synti á 21,07 sek. og bætti þar með Ólympíumetið sem Brasilíumaðurinn Cesar Cielo hafði sett í Peking 2008, 21,30 sek. Dressel hafði áður unnið gullið í 100 m skriðsundi, 100 m flugsundi og í 4x100 m skriðsundi. Frakkinn Florent Manaudou vann silfrið í 50 m skriðsundinu og Bruno Fratus frá Brasilíu bronsið.

Emma McKeon frá Ástralíu vann svo 50 m skriðsund kvenna, einnig á Ólympíumeti. Hún synti á 23,81 sek. og skákaði um leið hinum frábæru sundkonum Söruh Sjöström frá Svíþjóð sem varð að sætta sig við silfrið og Pernille Blume frá Danmörku sem vann bronsið. McKeon bætti eigið Ólympíumet sem hún setti í gær, en þá synti hún á 24,00 sek. Þetta voru þriðju gullverðlaun McKeon á leikunum í Tókýó en áður hafði hún unnið 100 m skriðsundið og 4x100 m skriðsundið.

McKeon með sjö verðlaun á leikunum

McKeon bætti svo sínum fjórðu gullverðlaunum við þegar hún vann með  boðsundssveit Ástralíu í 4x100 m fjórsundi kvenna. Sveitin synti á nýju Ólympíumeti, 3:51,60 mín. Fyrra metið 3:52,05 mín. sett árið 2012 í London. Með McKeon voru Kaylee McKeown, Chelsea Hodges og Cate Campbell með henni í áströlsku sveitinni. McKeown vann þar með sín fjórðu verðlaun í Tókýó, hún vann þrenn gullverðlaun og ein bronsverðlaun. Bandaríkin fengu silfur og bronsverðlaunin fóru til Kanada.

Emma McKeon tók þátt í sjö sundum og vann verðlaun í þeim öllum. Fern gullverðlaun og þrenn bronsverðlaun. Enginn ástralskur sundmaður hefur unnið til fleiri verðlauna á einum Ólympíuleikum. Ian Thorpe vann fimm verðlaun, þrjú gull og tvö silfur í Sydney árið 2000.

Robert Finke frá Bandaríkjunum varð Ólympíumeistari í 1500 m skriðsundi karla. Sigurtími hans var 14:39,65 mín. Hann vann einnig 800 m skriðsundið fyrr á leikunum.

Heimsmet hjá Bandaríkjunum - Dressel með

Í 4x100 m fjórsundi karla, lokagrein sundsins á þessum Ólympíuleikum féll svo heimsmet. Bandaríska sveitin synti á 3:26,78 mín. og bætti heimsmet Bandaríkjanna frá því í Ríó sem var 3:27,95 mín. Þar sem Calaeb Dressel var í bandarísku sveitinni vann hann sín fimmtu gullverðlaun í Tókýó. Hann keppti í sex sundum og vann gullið í fimm þeirra.

Með Dressel í bandarísku sveitinni syntu Ryan Murphy, Michael Andrew og Zach Apple. Bretar unnu silfrið á nýju Evrópumeti og Ítalir hlutu bronsið.