Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Hægir á bílaframleiðslu vegna skorts á tölvukubbum

epa04744356 Tinosch Ganjineh (L) Project Leader AutoNOMOS, and Daniel Goehring, Project Leader Self-Driving Cars Intelligent Systems and Robotics Freie Universitaet Berlin (R) drive in a driverless car, presented by Swiss communication company Swisscom,
 Mynd: EPA - KEYSTONE
Mjög hefur hægt á bílaframleiðslu vegna skorts á tölvukubbum sem nauðsynlegir eru nútímafarartækjum. Talið er að margir mánuðir séu í að mögulegt verði að auka framleiðslu að nýju.

Tölvukubbar og hálfleiðarar eru nauðsynlegir rafkerfum nútímabíla en skortur hefur verið á þeim frá því á síðari hluta ársins 2020. Afkoma bílaframleiðenda og framleiðenda íhluta hefur farið úr væntingum það sem af er ári þrátt fyrir skortinn.

Að einhverju leyti geta bílaframleiðendur sjálfum sér um kennt því þeir drógu úr pöntunum þegar kórónuveirufaraldurinn skall á. Þá einbeittu framleiðendur íhlutanna sér að framleiðslu fyrir smærri raftæki enda jókst sala á slíkum vörum mjög á síðasta ári.

Þegar eftirspurn eftir bílum jókst að nýju lentu bílaframleiðendur í klemmu en margir þeirra hægðu mjög á framleiðslu og lokuðu jafnvel heilu verksmiðjunum þegar dró úr bílasölu. 

Búist var við að skortáhrifanna gætti stutt og fjárhagsleg áhrif yrðu skammvinn en nú blasir við að staðan verði áfram sú sama út árið og áhrifin því mikil á afkomu fyrirtækjanna. 

Voldugir framleiðendur sjá nú fram á að neyðast til að framleiða mun færri bíla en til stóð og til að bregðast við því einbeita þeir sér að framleiðslu dýrari gerða eða þeirra sem mest spurn er eftir. Eins hefur kynningum á nýjum gerðum verið frestað. 

Vandinn líklegast að baki en áhrifanna gætir lengi

Þýskur sérfræðingur í bílgreininni, Ferdinand Dudenhöffer að nafni, álítur að dimmasti dalur bílaframleiðenda sé að baki. Hann telur botninum náð en telur þó að áhrifa skortsins á tölvukubbum í bíla geti gætt allt til ársins 2023. 

Í samtali við AFP-fréttaveituna segist hann áætla að í heildina verði framleiddir ríflega fimm milljón færri bílar þetta ár en upphaflega stóð til. Bílkaupendur þurfi án efa að bíða lengur eftir nýjum bíl og verð hækki vegna þessa að ekkert er til á lager. 

Dudenhöffer segir verðið á notuðum bílum einnig hafa hækkað þar sem neytendur hafi frekar snúið sér þangað en að þurfa að bíða mjög lengi eftir að endurnýja farartæki sitt. 

Þessi reynsla gæti orðið til þess að framleiðendur endurskoði þau vinnubrögð sem þeir hafa ástundað um árabil að draga úr birgðum til að bæta afkomuna. Dudenhöffer varar þó við að annar vandi geti blasað við bílaframleiðendum.

Nú þegar framleiðendur einbeita sér í auknum mæli að framleiðslu rafbíla geti farið svo að framleiðendur rafhlaða geti ekki haldið í við eftirspurnina. Það gæti orðið þess að skorts fari að gæta í upphafi ársins 2023.