Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Flugfélögin mega ekki flytja vottorðslausa útlendinga

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Íslenskum flugrekendum er skylt að vísa erlendum farþegum frá, framvísi þeir ekki neikvæðu COVID-prófi. Þetta segir upplýsingafulltrúi Samgöngustofu. Ef Íslendingar mæta vottorðslausir á flugvöllinn er það flugstjóri vélarinnar sem ræður hvort þeir fái að fara með.

Ólík viðbrögð flugfélaganna

Flugfélögin Play og Icelandair hafa brugðist við vottorðsleysi íslenskra farþega með ólíkum hætti. Play telur sig geta vísað íslenskum ríkisborgurum sem ekki framvísa smitleysisvottorði frá en Icelandair hleypir þeim um borð. Í samtali við mbl.is sagði talsmaður Icelandair að félagið teldi sér skylt samkvæmt lögum að hleypa Íslendingum um borð. 

Flugstjórinn ráði örlögum vottorðslausra Íslendinga

Þórhildur Elínardóttir, upplýsingafulltrúi Samgöngustofu, segir að á þessu sé tekið í reglugerðum og bráðabirgðaákvæði við lög um loftferðir, ekki gildi það sama um íslenska ríkisborgara og erlenda. „Regluverkið eins og það er sett fram er alveg skýrt að því er varðar skyldu flugrekenda til að hleypa ekki um borð til Íslands farþegum sem eru ekki íslenskir ríkisborgarar ef þeir eru ekki með vottorð. Þessi skylda flugrekandans á ekki við um íslenska ríkisborgara,“ segir Þórhildur. Í þeim tilfellum, þegar íslenskur ríkisborgari á leið til Íslands getur ekki framvísað umbeðnum vottorðum eða staðfestingum þá ber flugrekandanum ekki skylda til að meina viðkomandi að fara um borð. Hann má sem sagt vísa honum frá en þarf þess ekki. „Þannig er ákvörðunin í þeim tilvikum hjá flugrekandanum sjálfum og flugstjórinn sem ræður,“ segir Þórhildur.

Uppfært 4. 8.: Allir farþegar þurfa að framvísa PCR-prófi en fólki frá EES/EFTA ríkjum ber ekki skylda til að framvísa bólusetningarvottorði. Það er því ekki hægt að neita því um flutning á þeim grundvelli að slíkt vottorð skorti. 

Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti Þórarinsson - RÚV
Á Keflavíkurflugvelli.

 

Íslendingsins bíður sekt en flugrekandinn sleppur

Ef flugrekandi hleypir erlendum ríkisborgurum vottorðslausum um borð fær félagið sekt. Ef Íslendingur er fluttur yfir hafið vottorðslaus, er það hann sem getur búist við allt að 100 þúsund króna sekt á vellinum vegna brota á sóttvarnarlögum , ekki íslenska flugfélagið.  

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV