Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

30 þúsund flýja frá Afganistan í hverri viku

01.08.2021 - 19:57
Mynd: EPA-EFE / EPA
Um þrjátíu þúsund Afganir flýja heimaland sitt í hverri viku. Harðir bardagar hafa staðið yfir við þrjár borgir í Afganistan um helgina þar sem talibanar reyna að styrkja enn stöðu sína.

Bandarísk stjórnvöld aðstoða nú við að koma diplómötum og Afgönum, sem hafa undanfarin ár starfað fyrir bandaríska herinn í Afganistan, úr landinu. 
Og þau eru mun fleiri sem reyna nú með öllum ráðum að komast frá Afganistan.

Um þrjátíu þúsund Afganir flýja landið í viku hverri og þá eru ótalin þau sem eru á flótta innan þess. Mikil fjölgun hefur orðið í hópi afganskra flóttamanna síðan byrjað var að draga herlið Bandaríkjanna og annarra NATO-ríkja frá landinu, eða um 30-40%.

Samkvæmt flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna er Afganistan það land þar sem næstflestir voru á flótta á síðasta ári. Einungis rekja fleiri flóttamenn uppruna sinn til Sýrlands. 

Flótti fólksins helst í hendur við uppgang talibana í Afganistan, sem hafa sótt í sig veðrið dag frá degi síðan ljóst varð að erlent herlið væri á leið úr landinu. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Á kortinu hér að ofan má sjá hvernig yfirráðasvæði landsins skiptast núna. Rauðmerkt svæði eru þau sem talibanar ráða yfir og bláu svæðin eru þau sem stjórnvöld í Afganistan ráða. Gulmerktu svæðin eru hins vegar staðir sem annaðhvort er enn barist um yfirráð yfir eða svæði þar sem talibanar standa vel að vígi.

Talibanar hafa fram til þessa staðið betur að vígi á landsbyggðinni en afgönsk stjórnvöld haldið völdum sínum í stærstu borgum landsins. Um helgina hafa staðið yfir harðir bardagar í og við borgirnar Herat, Lashkar Gah og Kandahar þar sem talibanar freista þess að styrkja stöðu sína. 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV