Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Yair Lapid sakar Írani um mannskæða árás á olíuskip

epa07819855 Leader at  the Israeli Blue and White Party  and former finance minister Yair Lapid speaks during the 'Influencers Conference' of the Israeli leading News Channel 12 in Tel Aviv, Israel, 05 September 2019. Israeli legislative election will be held on 17 September.  EPA-EFE/ABIR SULTAN
Yair Lapid. Mynd: EPA-EFE - EPA
Ísraelsstjórn sakar Írani um að hafa ráðist á olíuskip á Arabíuflóa í fyrradag þar sem tveir skipverjar létust. Bretar og Bandaríkjamenn lýsa yfir áhyggjum af þróun mála á svæðinu en sífellt hitnar í kolunum milli Írans og Ísraels.

Skipið er í eigu líberíska útgerðarfélagsins Zodiac Maritime sem segist vera að rannsaka árásina þar sem breskur og rúmenskur skipverji féllu í valinn.

Yair Lapid, utanríkisráðherra Ísraels kveðst þess þó fullviss að íranskir hryðjuverkamenn hafi verið að verki. Í ávarpi í gær sagði hann að  heimurinn megi ekki standa þögull hjá.

Hann kallaði eftir hörðum viðbrögðum, kvaðst hafa ráðfært sig við Dominic Raab, utanríkisráðherra Bretlands og sagði að málið yrði tekið upp á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

Íransstjórn hefur ekki tjáð sig um ásakanirnar og engar sannanir liggja fyrir um hvað átti sér stað, að því er fram kemur í umfjöllun BBC um málið. Þar segir einnig að enn hitni í kolunum í óyfirlýstu „skuggastríði“ milli Ísraels og Írans.

Bandaríska utanríkisráðuneytið lýsti áhyggjum af atburðinum og að fylgst væri með þróun mála. Írönsk sjónvarpsstöð hefur eftir ónefndum heimildum að árásin væri hefnd fyrir meinta árás Ísraela á flugvöll í Sýrlandi. Sýrlendingar eru yfirlýstir bandamenn Írana.

Spenna hefur verið að magnast mjög á svæðinu undanfarið og í yfirlýsingu frá bresku ríkisstjórninni segir að þar á bæ væri unnið hörðum höndum að því að komast að hvað gerðist.

Áríðandi sé að skip geti siglt um í friði í samræmi við alþjóðalög en oft hefur verið ráðist há ísraelsk og írönsk skip á svæðinu en mannfall er þó fátítt.   

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV