Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Þriggja daga útgöngubann í Queensland í Ástralíu

31.07.2021 - 05:18
epa09366127 A pop-up drive-through COVID-19 testing facility at the Centrepoint Church in Taigum, Brisbane, Queensland, Australia, 26 July 2021. The Gold Coast and Brisbane are on alert after a man tested positive for COVID-19 after being released from hotel quarantine following a trip to China.  EPA-EFE/DANNY CASEY  AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - AAP
Milljónum íbúa Brisbane, þriðju stærstu borgar Ástralíu, og Queensland verður gert að halda sig heima í þrjá daga vegna aukinnar útbreiðslu Delta-afbrigðis kórónuveirunnar. Ráðstafanirnar taka gildi síðdegis í dag laugardag.

Fólki er aðeins heimilað að yfirgefa heimili sín til að kaupa mat og lyf en má þó ekki fara lengra en tíu kílómetra að heiman. Undantekning er þó gerð varðandi vegalengdina fyrir íbúa á strjálbýlli svæðum.

Fólki er einnig heimilt að fara til vinnu gegni það samfélagslega mikilvægum störfum og eins má stunda hreyfingu útivið. Jafnframt má leita læknis, sinna einhverjum sem þarf á aðstoð að halda, fara í sýnatöku eða bólusetningu við COVID-19.

Grímunotkun er skylda á útgöngubannssvæðunum nema með nokkrum sérstaklega tilgreindum undantekningum.

Mánaðarlangt útgöngubann gildir í Sidney stærstu borg landsins en mikil útbreiðsla Delta-afbrigðis kórónuveirunnar hefur orðið til þess að stjórnvöld framlengdu það.

Hermenn munu aðstoða borgaryfirvöld og lögreglu við að fylgja banninu eftir frá næstkomandi mánudegi. Iðulega hefur verið gripið til harðra takmarkana og lokunar landamæra Ástralíu til að halda aftur af útbreiðslu veirunnar. Bólusetningar þykja þó ganga hægt en innan við 20% íbúa hafa verið bólusett.