Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Sóttvarnahús verða bara fyrir fólk í einangrun

31.07.2021 - 18:30
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra ætlar að breyta reglugerð þannig að farsóttarhús verði aðeins fyrir fólk í einangrun. Fólk sem þarf í sóttkví vegna COVID-19 verður að leita annað. Undanfarið hefur verið mikið álag á sóttvarnahús og tvísýnt um pláss fyrir fólk sem er í einangrun vegna covid-smits.

Vísir greindi frá því í dag að heilbrigðisráðherra hyggist breyta reglugerð til að taka á vandanum sem steðjar að. Þar er jafnframt haft eftir Svandísi að verið sé að semja um húsnæði fyrir tvö ný farsóttarhús.

„Við höfum á­kveðið að gera breytingu sem snýr að því að ferða­menn í sótt­kví verði að finna sér önnur úr­ræði en far­sóttar­hús stjórn­valda,“ hefur Vísir eftir Svandísi. „Fyrir­komu­lagið eins og það er núna er eitt­hvað sem gengur ekki til lengdar; að fólk í sótt­kví geti tekið hana út á far­sótta­rhúsunum.“

Svandís segir í samtali við Vísi að með tveimur aðgerðum eigi að leysa vandann í farsóttarhúsunum. Annars vegar með því að stytta þann tíma sem einkennalaust bólusett fólk þarf að vera í einangrun vegna covid, hins vegar með því að einungis fólk í einangrun geti farið í farsóttarhús.

Staðan var orðin tvísýn

Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður sóttvarnarhúsa, sagði í gær að það styttist í að öll herbergi í sóttvarnarhúsum yrðu fullnýtt, þá gæti komið til þess að vísa þyrfti covid-sýktu fólki frá. Þá þegar höfðu verið settar hömlur á því hverjir gætu leitað í sóttvarnarhús. Síðar í gær var greint frá því að einkennalaust bólusett fólk sem greinist með covid sæti hér eftir tíu daga einangrun í stað fjórtán daga einangrunar eins og aðrir. Þó er það skilyrði sett að viðkomandi séu heilsuhraustir og ekki ónæmisbældir.