Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Smitrakningarteymið hringir bara í þau sem smitast

31.07.2021 - 17:47
Mynd með færslu
 Mynd: skjáskot - rúv
Smitrakningarteymið hringir nú aðeins í það fólk sem hefur smitast af covid. Þau sem eru útsett fyrir smiti og þurfa að fara í sóttkví fá skilaboð en ekki símtal.

Með mikilli fjölgun covid-smita undanfarið hefur álag aukist á alla þætti heilbrigðiskerfisins sem vinna að faraldrinum. Þúsundir mæta í skimun dag hvern, slökkviliðið flytur tugi covid-sjúkra og smitrakningarteymið sinnir mun fleiri málum en áður.

Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningarteymisins, segir að þjónustan skerðist við þetta. „Við erum með alveg skýran fókus á að ná til allra sem eru smitaðir en við erum ekki lengur að hringja í alla sem eru útsettir og þurfa að fara í sóttkví. Þeir fá bara sjálfvirk skilaboð í kerfinu þegar þær upplýsingar skila sér til okkar.“

Óráðlegt að fara of snemma í skimun

Fólk fær upplýsingar í smáskilaboðum og með tölvupósti, gegnum Heilsuveru og rakningarappið sé það útsett fyrir smiti. Fólk getur þá sjálft þurft að meta hvað sé réttast að gera í stöðunni.

Það tekur tíma fyrir veiruna að byggjast upp í líkamanum svo að hún greinist við skimun. Fari fólk of snemma af stað getur það fengið falska öryggistilfinningu. „Við heyrum það undanfarið að það eru rosalega margir sem rjúka til og fara í sýnatöku og telja sig þar með búna. Það er ekki svoleiðis. Það er hægt að svindla á þessu með sóttkví í sjö daga en þú svindlar ekkert á veirunni sjálfri.“

Nokkur hópsmit tengjast stórum viðburðum, önnur litlum og stærri veislum. Talsvert er um að erlendir ferðamenn greinist smitaðir þegar þeir koma í sýnatöku til að geta snúið aftur heim til sín eða haldið ferðalagi sínu áfram til annarra landa.

Margir landsmenn eru nú á ferðalagi. Jóhann Björn segir að það geti flækt stöðuna að fólk sé á ferðalagi fjarri heimili sínu, til dæmis ef það þarf að fara í sóttkví. Hann segir að fólk virðist passa sig minna en áður, enda sé útbreiðslan afar hröð. „Við sáum það svo sem nokkuð skýrt um síðustu verslunarmannahelgi. Það komu talsvert mörg tilfelli þar á eftir.“

Hefur þurft að loka fyrirtækjum

Covid-veikindi eru farin að hafa áhrif mjög víða, segir Jóhann Björn. Þannig hafi þurft að loka nokkrum fyrirtækjum vegna vandræða við að manna þau. „Við óttumst að ef fram fer sem horfir, að þetta haldist í hundrað á dag eða fari eitthvað hærra, þá muni þetta hafa talsverð áhrif hjá fyrirtækjum og stofnunum.“