Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Milljónir Bandaríkjamanna gætu orðið heimilislausar

epa07885902 The US Capitol Building in Washington, DC, USA, 01 October 2019.  EPA-EFE/MICHAEL REYNOLDS
Þinghúsið í Washington. Mynd: EPA-EFE - EPA
Milljónir Bandaríkjamanna gætu staðið frammi fyrir því að verða bornir út af heimilum sínum á næstunni. Á sunnudag rennur út bann við útburðargerðum sem gilt hefur um gjörvöll Bandaríkin um ellefu mánaða skeið.

Eftirspurn eftir leiguhúsnæði er mikil um þessar mundir og því búist við að leigusalar beiti hörku gegn þeim sem ekki greiða leigu.

Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur hvatt fulltrúadeild þingsins til að framlengja bannið eftir að Hæstiréttur úrskurðaði að hann gæti ekki framlengt það sjálfur út september eins og hann ætlaði sér. 

Óljóst er hvort Demókratar í deildinni fá nægilega stuðning svo hægt verði að framlengja bannið.

Svo virðist sem einhverjir þingmenn flokksins séu efins og Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildarinnar, fullyrti í yfirlýsingu í gær að enginn Repúblikani styddi framlengingu bannsins við útburði. Málið er því í biðstöðu í deildinni. 

Daginn áður sagði að Pelosi siðferðilega mikilvægt að tryggja framlenginguna og brýndi jafnframt fyrir ríkisstjórum og embættismönnum að koma til skila þeirri aðstoð til leigjenda sem fulltrúadeildin hefur þegar úthlutað. 

Ábyrgðin liggi hjá hverju ríki, borg og sýslu fyrir sig, samkvæmt ákvæðum laga um aðstoð vegna kórónuveirufaraldursins.

Í könnun sem gerð var í júlí segjast á áttundu milljón þeirra 51 milljónar leigjenda sem rætt var við vera í vanskilum með leigu og helmingur kveðst óttast útburð innan tveggja mánaða.