Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Miklir skógareldar geisa á Pelópsskaga

31.07.2021 - 22:37
epa09370849 A firefighting helicopter douses a wildfire in the area of Stamata, in north-eastern Athens, Greece, 27 July 2021. Firefighting forces are operating in the area of Stamata, in the Attica region, to contain a wildfire that broke out earlier in the day. Some 22 fire engines with 68 crew members, three teams of firemen on foot, the municipality's water trucks along with four firefighting aircraft, and five water dropping helicopters are currently battling the blaze which is very close to inhabited areas. In the meanwhile, the Civil Protection's emergency number 112 was activated in the wider region of Stamata and Rodopoli informing the citizens to be on alert and follow authorities' instructions.  EPA-EFE/YANNIS KOLESIDIS
 Mynd: EPA-EFE - ANA-MPA
Hálft annað hundrað slökkviliðsmanna hefur barist við skógarelda nærri borginni Patras á Pelópsskaga á Grikklandi. Fimmtíu slökkviliðsbílar, átta flugvélar og þyrlur búnar slökkvibúnaði hafa verið notuð við aðgerðirnar.

Yfirvöld fluttu fólk á brott frá fimm þorpum á svæðinu og frá ferðamannastaðnum Loggos við ströndina.

Á annan tug húsa eru brunnin til grunna og fimm manns voru flutt á sjúkrahús með öndunarerfiðleika. Hitabylgja hefur geisað á Grikklandi frá því á föstudag en hitinn hefur farið upp í 44 gráður.

Sjúkrahús í Patras-borg og Aigio í nágrenninu voru í viðbragðsstöðu að taka á móti slösuðu fólki og skip strandgæslunnar lónaði með ströndinni svo hægt væri að bjarga fólki sem steypti sér til sunds undan logunum.

Hraðbraut á svæðinu var lokað sem og Rio-Antirrio brúnni yfir Kórintuflóann sem tengir skagann við meginland Grikklands. Opnað var fyrir umferð síðdegis í dag. 

Undanfarinn sólarhring hafa brotist út 56 skógareldar sem yfirleitt tókst að slökkva fljótt. Skógareldar eru algengir að sumarlagi á Grikklandi en sérfræðingar segja þeim hafa fjölgað auk þess sem ákefð þeirra er meiri sem kennt er hnattrænni hlýnun.

Fyrir nokkrum dögum brunnu miklir eldar nærri höfuðborginni Aþenu en ekkert manntjón varð af völdum þeirra. Yfir eitthundrað fórust á sama svæði í verstu skógareldum í manna minnum í júlí 2018.