Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Lítill skaði þó Ísland verði rautt

Mynd með færslu
 Mynd:
Ísland er appelsínugult á korti Sóttvarnarstofnunar Evrópu og fjölgi smitum sem horfir verður Ísland óhjákvæmilega rautt. Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir það ekki skipta svo miklu máli.

„Ég er aðeins búinn að vera að reyna að ná upplýsingum um þetta og ég held að þetta hafi ekki jafn mikil áhrif og við óttuðumst í fyrstu, svona þegar við fórum að skoða þetta,“ sagði Jóhannes Þór í samtali við Vikulokin á Rás 1 í morgun. 

„Mér sýnist að það séu tiltölulega fá lönd í Evrópu sem láta þessa stöðu núna hafa áhrif á bólusett fólk sem er að koma heim, en einhver þó. Það er lítið af afbókunum sem eru að verða núna vegna þessa. Eftirspurnarfallið er eitthvað en ekki jafn mikið og búist var við.“

Jóhannes segist telja að þeir sem helst finni fyrir áhrifum af stöðunni séu Íslendingar sem eru að fara erlendis vegna þess að bólusett fólk frá öðrum löndum, til að mynda Íslendingar á faraldsfæti, er líklegast til að lenda í nýju reglum og sóttvarnarráðstöfunum í hinum ýmsu löndum.

„Varðandi bandarísku ferðamennina þá hefur þetta sóttvarnakort Evrópu náttúrulega engin áhrif þar, þar erum við bara á korti Utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna jafn gul og við höfum verið undanfarna mánuði og mér sýnist það muni ekkert breytast,“ bætir Jóhannes Þór við, en gul merking táknar þar einungis "Reconsider travel."  

- Við erum þá ekki að fara að sjá þá stöðu aftur að íslenskar götur tæmist af erlendum ferðamönnum?

„Nei,“ svaraði Jóhannes Þór.