Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Langflestir fara að sóttvarnartilmælum 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Óánægja með sóttvarnarreglur verður stöðugt sýnilegri í þjóðfélaginu og í dag fóru fram mótmæli á Austurvelli gegn sóttvarnarráðstöfunum sem í gildi eru. Langflestir fara þó að tilmælum, segir Jóhann Karl Þórisson aðstoðaryfirlögregluþjónn.

Aðspurður hvernig gangi að framfylgja sóttvarnarreglum segir Jóhann Karl það ganga mjög vel og langflestir fari að settum tilmælum. „Við höfum verið að fá reglulegar tilkynningar í gegnum faraldurinn sem við könnum í framhaldinu, en við erum ekki að finna neina aukningu síðustu daga og vikur.

Hvað eins metra regluna áhrærir og hvort erfiðara sé að framfylgja henni segir Jóhann Karl að hann biðli til fólks um að fara eftir reglunum því skiljanlega geti lögreglan ekki verið allstaðar með málbandið á lofti að kanna hvort einn metri eða minna er á milli fólks.

Jóhann Karl á frekar von á rólegri helgi í höfuðborginni en lögreglan muni engu að síður bregða sér í bæinn og taka púlsinn á næturlífinu til að kanna hvort allt fari ekki skikkanlega fram. Hann segir það erfiðasta sem lögreglan stendur frammi fyrir þessa dagana vera fólk sem stendur í mótmælum gegn ráðstöfunum sem meginþorri þjóðar er hlynntur.  

„Það er alltaf einn og einn sem telur sig ekki þurfa þetta og hefur aðrar skoðanir. Við þurfum þá að taka viðkomandi úr umferð og passa upp á almannafrið,“ sagði Jóhann Karl.