
Krefjast óháðrar rannsóknar á örlögum frumbyggjabarna
Hundruð söfnuðust saman í Ottawa, höfuðborg Kanada, í gær og kröfust opinberrar rannsóknar á starfsemi heimavistarskóla fyrir börn af frumbyggjaþjóðum í landinu.
Mikil reiði hefur blossað upp í landinu eftir að yfir eitt þúsund ómerktar grafir frumbyggjabarna voru uppgötvaðar á lóðum heimavistarskóla. Mótmælendur söfnuðust saman við þinghúsið í borginni að áeggjan tveggja þingmanna vinstri flokksins NDP.
Um 150 þúsund börn voru send í slíka skóla frá lokum nítjándu aldar og fram á tíunda áratug þeirrar tuttugustu. Rannsóknarnefnd greindi frá því fyrir nokkrum árum að börnin hafi verið beitt grófu líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi, svift menningu sinni og tungu.
Nefndin álítur að yfir fjögur þúsund börn hafi látist af völdum sjúkdóma og vanhirðu. Mumilaaq Qaqqaq, þingmaður NDP, skrifaði á Instagram að nú væri tímabært að frumbyggjar Kanada fengju réttlætinu framgengt.
Hún sagði að þeir Justin Trudeau forsætisráðherra og David Lametti dómsmálaráðherra ættu þegar í stað að koma af stað óháðri rannsókn, undir erlendu eftirliti, á glæpum Kanada gegn frumbyggjum.
NDP skoraði snemma í júlí á Trudeau forsætisráðherra að tilfnefna sérstakan saksóknara til að stjórna óháðri rannsókn á örlögum frumbyggjabarna í heimavístarskólunum.
Charlie Angus, þingmaður flokksins, segir almenning sleginn yfir þeim gríðarlega fjölda grafa sem fundist hafi. Hann segir hverja og eina þeirra segja sögu helstefnu ríkisins gegn frumbyggjum Kanada.