Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ísland stendur vel að vígi ef heimurinn hrynur

31.07.2021 - 12:34
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Vísindamenn segja að hnattrænt hrun gæti átt sér stað innan fárra áratuga og hafa bent á fimm lönd sem eru líklegust til að standast ógnir þær sem kunna að dynja á heimsbyggðinni í framtíðinni. Ísland er þar á meðal.

Það er Sky News sem greinir frá. Rannsókn vísindamanna við Stofnun um hnattræna sjálfbærni, Global Sustainability Institute, við Anglia Ruskin háskólann í Cambridge, bendir til þess að samspil af vistfræðilegri eyðileggingu, þverrandi auðlindum og fólksfjölgun gæti framkallað hrun á heimsvísu „innan fárra áratuga“ þar sem loftslagsbreytingar gera illt verra.

Umrætt hrun myndi einkennast af upplausn á aðfangakeðjum, alþjóðasamningum og alþjóðlegum fjármálastofnunun, að sögn vísindamanna Anglia Ruskin háskólann. Að sögn vísindamannanna gæti vandinn breiðst hratt út vegna þess hve tengd og efnahagslega háð lönd eru hvert öðru.

Fimm lönd voru skilgreind sem best til þess fallin að viðhalda siðmenningu innan eigin landamæra ef í harðbakkann slær. Nýja Sjáland var þar efst á list og í kjölfarið komu Ísland, Bretland, Írland og Ástralía.

Öll eru löndin eyjar eða heimsálfur sem hafa minni öfgar í hitastigi og breytilega úrkomu vegna nálægðar við höf.

Vísindamenn sögðu að það gerði umrædd lönd líklegust til að búa við tiltölulega stöðugar aðstæður í framtíðinni, þrátt fyrir áhrif loftslagsbreytinga sem búist er við að muni bitna verst á hitabeltinu og heittempraða beltinu.