Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Erilsamur sólarhringur að baki hjá Slökkviliðinu

Mynd með færslu
 Mynd: Rauði krossinn
Talsverður erill var hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins undanfarinn sólarhring. Liðið fór í um 156 sjúkraflutninga, 32 forgangsútköll og 29 vegna COVID-19. Nokkuð var um ölvunarakstur og akstur undir áhrifum fíkniefna í gærkvöld og í nótt.

Slökkvibílar voru sendir í sjö útköll sem öll reyndust þó minniháttar. Þrátt fyrir eril var ekki mikið um alvarleg atvik og engin alvarleg slys urðu á fólki. Talsvert var um að flytja þurfti veikt fólk. Þeir flutningar tengjast ekki faraldrinum að sögn varðstjóra hjá Slökkviliðinu.

Sóttkvíarbrot og kertaþjófur í verslun

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók ofurölvi mann við Hlemm á ellefta tímanum í gærkvöld. Í ljós kom að hann hafði yfirgefið sóttvarnarhús þar sem honum bar að dvelja.

Hann var ekki á því að fara að fyrirmælum lögreglu og gistir nú fangageymslur vegna ölvunar sinnar.

Skömmu fyrir þrjú í nótt reyndi maður að stela kerti úr verslun í hverfi 108. Hann var þar ásamt kærustu sinni að því er fram kemur í dagbók lögreglu en hún var grunuð um að hafa fíkniefni í fórum sínum.

Lögreglan gerði skýrslu um bæði brotin á staðnum. Allmikið var um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna í gærkvöld og í nótt, auk þess var einn þeirra sem stöðvaður var, grunaður um sölu á áfengi.  
 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV