Byrjaði að efast um kyn sitt 6 ára

Mynd: Ásu Önnu- Ólafsdóttur / Aðs / Eir ÖnnuÓlafs / Andie Sophia F

Byrjaði að efast um kyn sitt 6 ára

31.07.2021 - 15:36

Höfundar

„Það var rosalega óþægilegt að þykjast vera karlmaður alveg áratugum saman,“ segir Andie Sophia Fontaine, fréttastjóri hjá Reykjavík Grapevine. Að vera kynsegin þýðir að viðkomandi upplifi sig hvorki sem karl né konu og orðið veitir fólki frelsi til að fá að vera eins og því líður best.

Kynsegin og kynseginleiki eru tiltölulega ný hugtök í umræðunni á Íslandi en fyrstu dæmin um hið nýja kynhlutlausa persónufornafn hán er frá 2013, einungis átta ára gamalt. En hvernig uppgötvar fólk að það sé kynsegin og hvernig segir það öðrum frá?  

Andie Sophia Fontaine, fréttastjóri og blaðakona hjá Reykjavík Grapevine, og Eir ÖnnuÓlafs, nemandi við Menntaskólann í Hamrahlíð, ræða um sína upplifun af kynseginleikanum.  

„Hefði viljað komast að þessu fyrr“ 

„Ég byrjaði fyrst að efast um kyn mitt þegar ég var sex ára,“ segir Eir ÖnnuÓlafs í samtali við Elísabetu Rún Þorsteinssdóttur í þættinum Kynsegin á Rás 1. Þá hafði Eir séð einhvern transfóbískan grínþátt hjá Spaugstofunni og spurði foreldra sína hvernig þau hefðu vitað að hán væri stelpa. Þau hafi gefið háni svör um líffræði og slíkt en Eir var ekki sannfært. „Ég hugsaði þetta svolítið, komst að þeirri niðurstöðu samt að nei, líklegast væri ég ekki strákur,“ segir hán.  

„En þetta kom alltaf aftur upp öðru hvoru. Ég sópaði þessu alltaf þægilega undir teppið og ákvað að þetta yrði seinni tíma vandamál og myndi bara koma í ljós þegar að því kæmi.“ Að lokum hafi það komið harkalega í ljós og Eir hefði viljað viðurkenna fyrir sjálfu sér aðeins fyrr að hán væri ekki algjörlega eins kyns. Eir hafi komist að því að hán væri ekki eitt um að sjá þessi kyneinkenni hjá sér, heldur sæi annað fólk þau líka. „Það var svolítið merkileg upplifun fyrir mig þegar ég komst að því að ég væri ekki ósýnilegt.“ Þá hafi Eir farið að viðurkenna fyrir sjálfu sér að hán þyrfti kannski eitthvað að skoða málið.  

Þetta var í febrúar í fyrra en hán kom út úr skápnum hálfu ári síðar. Þá hafi Eir loks áttað sig á þeirri afneitun sem hán hafði verið í með kyn sitt. Hán hafði alla tíð átt erfitt með skólasund sem hán botnaði aldrei í, ávallt gengið í stórum peysum og þoldi ekki að vera í neinu flegnu. „En svo fór þetta allt að smella þegar ég leyfði mér að hugsa um það.“ 

Fór nánast að gráta þegar hán heyrði orðið fyrst  

Árið 2012, þegar Andie Sophia Fontaine var rúmlega fertugt, heyrði hán enska orðið non-binary, eða kynsegin, í fyrsta sinn. „Þetta var sláandi fyrir mig,“ segir Andie, þýðing orðsins hafi komi háni í opna skjöldu og lýsti loks háns upplifun. Andie hafði nefnilega fundið fyrir því á sínum yngri árum að hán væri ekki strákur en þó ekki 100% stelpa heldur - en hafði engan orðaforða yfir tilfinningar sínar. 

„Það var rosalega óþægilegt að þykjast vera karlmaður alveg áratugum saman,“ segir Andie, þetta hafi haft gríðarleg áhrif á geðheilsu háns og andlega vellíðan. „Að sjá þetta orð í fyrsta sinn var eins og ljós kveikti inni í mér. Ég byrjaði loksins, fannst mér, að kynnast sjálfa mig.“  

„Ég mæli ekki með þessu en ég kom út á Facebook á meðan ég var í fríi,“ segir Andie því hán var að sögn gunga. Hán fékk strax viðbrögð frá fólki, bæði í athugasemdum og tölvupósti. Vinnustaðurinn, Reykjavík Grapevine, brást vel við fréttunum og spurði strax hvað þau gætu gert fyrir Andie.  

„Við búum í tvíkynjuðum heimi“ 

Andie telur að það erfiðasta við kynseginleikann sé fornafnið hán. „Þó það sé ekki erfitt að beygja orðið, fólk er bara ekki vant því eða nennir því ekki.“ Eftir um tæpt ár af sífelldri miskynjun gafst Andie upp á því að leiðrétta fólk og sagði því að það mætti nota persónufornafnið hún. „Ég sé í augunum á fólki að það þakkar guði fyrir að geta notað fornöfn sem það kannast við og þekkir.“  

„Við búum í tvíkynjuðum heimi, þannig að það er rosa erfitt fyrir sumir að skynja hvað það þýðir að vera eitthvað annað en karl eða kona,“ segir Andie. Eir telur þó að með auknum sýnileika kvára fari yngra fólk sem upplifi slíkar tilfinningar að átta sig á eigin kynseiginleika og geti komið út fyrr. „Sex ára ég hefði gripið þetta kynsegin á lofti ef ég hefði vitað að það væri til,“ segir hán.  

Rætt var við þau Andie Sophia Fontaine og Eir ÖnnuÓlafs í þættinum Kynsegin á Rás 1.  

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Mörgum líður miklu betur eftir að skipta um fornafn

Menningarefni

„Það eru heldur betur að koma jól á laugardaginn“

Menningarefni

„Ég var miklu týndara en ég er núna“