Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Áhrifin af takmörkunum minni en gert var ráð fyrir

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Áhrifin af takmörkunum sem stjórnvöld gripu til fyrir viku eru minni en gera hefði mátt ráð fyrir, segir ferðamálastjóri. Rúmlega tvö hundruð flugvélar lenda á Keflavíkurflugvélli um og eftir helgi. Ekki er að sjá neina breytingu á fjölda farþega í flugvélum, samkvæmt upplýsingum frá Isavia.

Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri segir að umsvif í ferðaþjónustu hér á landi séu meiri en ráð var fyrir gert.

„Júlí er tiltöllega góður, auðvitað munar um innlenda ferðamenn en það er talsvert mikið af erlendum ferðamönnum og útlitið fyrir ágúst hefur verið gott,“ segir Skarphéðinn.

Í byrjun þessa mánaðar spáði Ferðamálastofa að um 890 þúsund erlendir ferðamenn myndu sækja landið heim. Skarphéðinn segir að sá fjöldi sé ríflega helmingur þess sem var árið 2019.

„Hvort að þetta með rauða merkingu eða appelsínugula merkingu, þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa verið að grípa til hafi áhrif á þetta veit ég náttúrulega ekki.“

Eru áhrifin þá ekki eins og menn óttuðust í byrjun?

„Það virðist vera að áhrifin af þeim takmörkunum sem stjórnvöld gripu til fyrir viku síðan séu minni heldur en hefði mátt gera ráð fyrir.“

Svo er að sjá hvaða áhrif fjöldi smita hér á landi og breytingin á litakóðanum hefur.

„Vísbendingar eru um að það sé kannski ekki enn þá. Ég held að menn séu að gera eins mikið úr þessu sumri og menn geta og ég held að það sé að takast,“ segir Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri.