Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Æðrulausir Eyjamenn skemmta sér innan takmarkana

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur - RÚV
Annað árið í röð var Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum aflýst og engin formleg dagskrá. Bæjarstjórinn segir Eyjamenn taka þessu af æðruleysi og reyna að skemmta sér innan marka þeirra takmarkana sem nú eru við lýði.

„Vestmannaeyingar taka þessu bara af æðruleysi, auðvitað er þetta alltaf svolítið áfall, þjóðhátíðin er mikil menningarhátíð og okkar menningarperla og við gerum bara gott úr hlutunum eins og sjálfsagt allir aðrir landsmenn, höldum upp á helgina innan þess ramma sem okkur er skapaður núna og það er fólk að gera.“

Setningarkaffið á sínum stað

Fólk haldi í hefðirnar sem tilheyri Þjóðhátíð. „Fólk gerir þetta bara með sínu fólki, heima hjá sér. Það er töluvert um að það sé tjaldað í görðunum og þar höldum við í þessar hefðir sem skipta okkur svo miklu máli og gera ÞJóðhátíð að því sem hún er, þessari einstöku hátíð. Við vorum með kaffi, ég og mín fjölskylda í gær, svokallað setningarkaffi. Ég veit það var í mörgum görðum í gærdag, svo er það lundinn og kjötsúpan, gítarspilið. Við gerum þetta bara í litlum hópum. Við reynum að gera gott úr hlutunum en við eins og aðrir búum bara við þessar aðstæður,“ segir Íris sem býst við að áfram verði gaman í dag og kvöld. „Ég trúi ekki öðru en að fólk eigi góða stund  með sínum nánustu í dag og njóti þess enda veðrið frábært og yndislegt hér að vera.“  

Róleg nótt hjá löggunni

Víða um land er lögregla með aukinn viðbúnað þessa miklu ferðahelgi vegna umferðarþunga og almenns skemmtanahalds. Nóttin var tiltölulega róleg hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í gærkvöldi strauk maður úr farsóttarhúsi, ofurölvi, sá var vistaður í fangaklefa. Lítill erill var í miðbænum og ekki mikið um útköll vegna partýstands. Nóttin var tíðindalaus á Ísafirði þrátt fyrir töluverðan földa í bænum og lögreglan á Akureyri hafði sömu sögu að segja. Þar eru tjaldsvæði orðin full og nokkuð um að ferðalangar, sem voru seint á ferðinni í gær, þyrftu að leita gistipláss í nærsveitum. Í Vestmannaeyjum var nokkuð um gleðskap í heimahúsum en allt fór vel fram að sögn lögreglu og enginn þurfti að gista fangageymslur. 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV