Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Vill fá aðra lögmenn sem geta sinnt málunum að fullu

Mynd með færslu
 Mynd: Ólöf Erla Einarsdóttir - RÚV
Ingólfur Þórarinsson tónlistarmaður segist nú vera í viðræðum við þrjár lögfræðistofur vegna yfirvofandi málaferla hans. Vilhjálmur H. Vilhjálmsson var lögmaður Ingólfs, en þeirra samstarfi er nú lokið. Ingólfur segist vilja hafa lögmenn sem geti sinnt málum sínum að fullu, en þau séu orðin of yfirgripsmikil fyrir einn mann að sinna ásamt öðrum verkefnum.

Ingólfur segir í samtali við RÚV að hann ætli einfaldlega að fá fleiri til að fara með málin fyrir sig og nú sé hann í viðræðum við þrjár lögfræðistofur.  

„Þetta er orðið aðeins yfirgripsmeira en við héldum í upphafi,” segir Ingólfur. „Vilhjálmur er í öðrum verkefnum, meðal annars erlendis, þannig að þetta er bara orðin of mikil vinna.” 

Hann segir margt hafa verið sagt sem sé alveg glórulaust. „Það er magt sem hefur farið úr böndunum og mörgu verið logið upp á mig, hreint út sagt,” segir Ingólfur. „Við [Vilhjálmur] erum búnir að eiga samtöl síðan þetta byrjaði og að lokum ákváðum við að þetta væri of mikið, miðað við þau verkefni sem hann er í . Ég vil bara að þetta verði einhver sem getur sinnt þessu að fullu.” 

Varðandi tímaramma á málaferlin segir Ingólfur að ekkert hafi verið neglt niður í þeim efnum.

„Þegar hlutir fara í svona átt þá tekur þetta bara töluverðan tíma að vinna í þessu.” 

Ekki hefur náðst í Vilhjálm í morgun.

Fréttablaðið greindi frá því í dag að Vilhjálmur hafi sagt sig frá máli Ingólfs. Vilhjálmur sá um að leggja fram kærur og kröfubréf vegna tíu ummæla á samfélagsmiðlum um meint kynferðisbrot Ingólfs. 

Mál Ingólfs komst í hámæli þegar 130 konur kröfðust þess við Þjóðhátíðarnefnd að Ingólfur stýrði ekki brekkusöngnum á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum.  Aðgerðarhópurinn Öfgar birti síðan nafnlausar frásagnir yfir tuttugu kvenna þar sem þær greindu frá að hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi og áreitni af hálfu þekkts tónlistarmanns.

Þjóðhátíðarnefnd sendi í framhaldinu frá sér yfirlýsingu um að Ingó myndi ekki stýra brekkusöngnum en það hafði hann gert frá árinu 2013 og annar tónlistarmaður var fenginn í hans stað. 

Ingólfur krafðist í kjölfarið milljóna í skaðabætur og afsökunarbeiðna en ekkert þeirra sem fékk kröfubréf ætlaði að greiða bætur eða biðjast afsökunar. Þá bauðst frumkvöðullinn Haraldur Þorleifsson til að greiða bæði lögfræðikostnað og miskabætur fyrir öll þau sem leita til hans í tengslum við þetta mál og yrðu kærð og/eða dæmd í málinu.