Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Tjaldsvæði á góðviðrissvæðum vel sótt og sum hótel full

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Starfsmaður tjaldsvæðanna í Fjallabyggð hyggst sýna útsjónarsemi um helgina til að halda djammi í skefjum og fjölskyldufólki ánægðu. Tjaldsvæðin á Siglufirði eru vel sótt og öll herbergi á Hótel Sigló uppbókuð. Töluverð aðsókn er líka á tjaldsvæðið í Tungudal á Ísafirði.

Veðrið þessa verslunarmannahelgina á að vera best á Vestfjörðum og á Norður- og Austurlandi. Nokkur fjöldi er á tjaldsvæðinu í Tungudal á Ísafirði og mikið hringt að sögn staðarhaldara. Svæðið er ekki hólfaskipt og því einungis hægt að taka á móti 200 manns. Sólin á að skína á Vestfjörðum á morgun og lögreglan segir töluverða traffík um vegina, að vísu í báðar áttir, bæði vestur og suður. 

Ísafjörður sumarbústaðir sumarbústaður Tunguskógur Tungudalur
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.is
Í Tungudal.

Veiran sigraði síldarævintýrið

Síldarævintýrið á Siglufirði átti að fara fram þessa helgi, en veiran hafði betur. Það er samt nóg af fólki á tjaldsvæðunum í Fjallabyggð. Guðmundur Ingi Bjarnason, forsvarsmaður tjaldsvæðanna, segir töluvert um að ungt fólk sem hefur í hyggju að skemmta sér um helgina þrátt fyrir viðburðaleysið hringi og vilji panta pláss. „Það þarf ekki að panta, svæðin eru stór en ég þarf líklega að vera svolítið útsjónarsamur að láta þau ekki vera með mikinn hávaða, ég læt þau allavega vita að það eru fjölskyldur á öllum tjaldsvæðunum hjá mér.“

Ólafsfjörður
 Mynd: Atli Þór Ægisson
Ólafsfjörður.

Hann telur að þetta ætti þó allt að geta farið saman, sérstaklega á Ólafsfirði þar sem færri eru á tjaldsvæðinu. Þar ætti unga fólkið að geta skemmt sér annars staðar þegar líða fer á nóttina, til dæmis bara niðri við strönd. Þangað sé bara tíu mínútna gangur. „Þau geta þá setið í laut og spilað á gítar eða eitthvað,“ segir Guðmundur. 

Fullt á Hótel Sigló og sum hús skreytt

Hótel Sigló er fullbókað um helgina. Kristbjörg Edda Jóhannsdóttir, hótelstjóri, segir að eitthvað hafi borið á afbókunum vegna ástandsins en þau herbergi sem hafi losnað hafi verið bókuð aftur jafnóðum. Þórarinn Hannesson, einn af skipuleggjendum Síldarævintýrisins, segir svekkjandi að hafa þurft að blása hátíðina af eftir margra vikna undirbúning en það sé einfaldlega ekkert vit í að hóa fleira fólki saman í bænum. Þá hafi komið upp smit á Siglufirði nýlega og fólk þar í einangrun. Einhverjir Siglfirðingar hafa haldið í hefðina og skreytt hús sín, eins og tilheyrir í aðdraganda Síldarævintýris, en ekkert verður af árlegum hverfisgrillveislum að sögn Þórarins.