Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Þung umferð og fólk ekkert að láta veiruna stöðva sig

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Gauti Gunnarsson - RÚV
Sævar Þór Sigmarsson, varðstjóri í umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir kórónuveirufaraldurinn ekki raska ferðaplönum landsmanna. Umferðin út úr borginni hefur verið þung í dag en gengið vel, ef frá er talið óhapp í Hvalfjarðargöngum á öðrum tímanum. 

„Umferðin hefur gengið bara mjög vel, það kom eitt atvik í dag þar sem bilaði bíll í Hvalfjarðargöngum, það náttúrulega olli töfum en þess fyrir utan hefur þetta gengið mjög vel,“ segir Sævar Þór. 

Straumurinn þungur um bæði Kjalarnes og Suðurlandsveg

Umferðin út úr höfuðborginni er þung og hefur verið það í allan dag, ekki ósvipuð hefðbundinni verslunarmannahelgarumferð, að sögn Sævars. En hvert liggur straumurinn helst? „Hann liggur á þessa hefðbundnu staði, þarna austur eftir, við sjáum mikla umferð á Suðurlandsvegi og einnig á Kjalarnesinu, það eru bara þessar hefðbundnu leiðir. Fólk er mikið að ferðast og það lætur ekki kóvidið stoppa sig í því.“ 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV