Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Segir sig frá máli Ingólfs

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Hæstaréttarlögmaðurinn Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hefur sagt sig frá máli tónlistarmannsins Ingólfs Þórarinssonar.

Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Vilhjálmur staðfestir þetta í samtali við blaðið en hann sá um að leggja fram kærur og kröfubréf vegna tíu ummæla á samfélagsmiðlum um meint kynferðisbrot Ingólfs. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hyggst Ingólfur fela lögmannsstofu þau mál. 

Mál Ingólfs komst í hámæli þegar 130 konur kröfðust þess við þjóðhátíðarnefnd að Ingólfur stýrði ekki brekkusöngnum á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum.  Aðgerðahópurinn Öfgar birti síðan nafnlausar frásagnir yfir tuttugu kvenna þar sem þær greindu frá að hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi og áreitni af hálfu þekkts tónlistarmanns.

Þjóðhátíðarnefnd sendi í framhaldinu frá sér yfirlýsingu um að Ingó myndi ekki stýra brekkusöngnum, en það hafði hann gert frá árinu 2013, og annar tónlistarmaður var fenginn í hans stað. 

Ingólfur krafðist í kjölfarið milljóna í skaðabætur og afsökunarbeiðna en ekkert þeirra sem fékk kröfubréf ætlaði að greiða bætur eða biðjast afsökunar. Þá bauðst frumkvöðullinn Haraldur Þorleifsson til að greiða bæði lögfræðikostnað og miskabætur fyrir öll þau sem leita til hans í tengslum við þetta mál og yrðu kærð og/eða dæmd í málinu.