Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Málshöfðun vegna óleyfilegrar nýtingar krabbameinsfruma

Mynd með færslu
 Mynd: Nbc
Afkomendur Henriettu Lacks tilkynntu í dag að þeir hygðust höfða mál á hendur lyfjarisunum sem högnuðust á því að nota frumur úr líkama hennar áratugum saman til vísindarannsókna. 

Henrietta Lack lést 31 árs að aldri árið 1951 af völdum leghálskrabbameins á Johns Hopkins sjúkrahúsinu í Baltimore. Hún var þeldökk, fimm barna móðir.

Á meðan meðferð hennar stóð voru sýni úr meininu fjarlægð og send á rannsóknarstofu, án hennar vitundar og notuð við vísindarannsóknir áratugum saman án vitneskju fjölskyldu hennar.

Alfred Carter, barnabarn hennar, lýsti því yfir í gær að nú væri nóg komið og varaði ónafngreinda lyfjarisa við málsókn.

Mannréttindalögfræðingurinn Ben Crump fer með mál fjölskyldunnar, en hann var meðal annars lögmaður ættingja Georges Floyd sem myrtur var af lögreglumanni í Minneapolis á síðasta ári. 

Rannsóknarstofur víða um heim hafa notað frumurnar sem teknar voru úr líkama Henriettu Lacks til að þróa margvísleg bóluefni, þar á meðal við lömunarveiki.

Einnig hafa þær nýst við rannsóknir á meðferð við krabbameini en lyfjaiðnaðurinn veltir milljörðum Bandaríkjadala ár hvert. 

Fjölskylda Henriettu komst fyrst á snoðir um málið á áttunda áratug síðustu aldar og árið 2013 samdi hún við Johns Hopkins háskólann um að fulltrúar hennar sætu í nefnd sem ákvæði framtíðarnotkun frumanna. Þá var ekki samið um bætur. 

Crump hyggst leggja fram stefnur 4. október næstkomandi en hefur ekki upplýst hvaða lyfjafyrirtækjum verði stefnt.  

 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV