Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Íslensk óperusöngkona sigraði í alþjóðlegri söngkeppni

Mynd með færslu
 Mynd: Melissa Zgouridi Studios

Íslensk óperusöngkona sigraði í alþjóðlegri söngkeppni

30.07.2021 - 15:06

Höfundar

Sópransöngkonan Bryndís Guðjónsdóttir bar sigur úr býtum í Riccardo Zandonai-söngkeppninni fyrir unga óperusöngvara. Hún segir mikinn heiður að hafa lent í fyrsta sæti.

Keppnin, sem er alþjóðleg og kennd við ítalska tónskáldið Riccardo Zandonai, hefur verið haldin árlega síðan árið 1994. Keppnin fór fram í bænum Riva del Garda við Gardavatnið á Ítalíu og stóð yfir dagana 17. til 24. júlí. Alls tóku 150 söngvarar frá 26 löndum þátt í keppninni.  

Bryndís hefur síðustu ár lagt stund á söngnám við Mozarteum í Salzburg og lauk meistaraprófi frá þeim skóla á dögunum. Hún segir það vera mikinn heiður að hafa lent í fyrsta sæti. ,,Þetta er mikill heiður og viðurkenning,” segir Bryndís. Hún hafi strax fengið góða tilfinningu fyrir keppninni þegar hún frétti fyrst af henni. Það hafi verið ótrúlega gaman að taka þátt og sigurinn komið á óvart.   

Mynd með færslu
 Mynd: Bryndís Guðjónsdóttir
Bryndís á sviðinu á lokatónleikunum

Hún segir keppnina hafa verið vel skipulagða og vel staðið að öllu í kringum hana en Bryndís deildi fyrsta sætinu með annarri óperusöngkonu, Miwako Okamura frá Japan. Að sögn Bryndísar hefur það tíðkast í fyrri keppnum að tveir söngvarar séu í fyrsta sæti.  Meðal aría sem hún söng var Al destin che la minaccia úr Mitridate, re di Ponto eftir Mozart og Regnava nel silenzio úr Lucia di Lammermoor eftir Donizetti. Á úrslitakvöldinu sjálfu söng hún tvær aríur, Glitter and Be Gay úr Candide eftir L. Bernstein og O zittre nicht úr Töfraflautunni eftir Mozart

Aðspurð hver hápunkturinn á þátttökunni hafi verið segir Bryndís það hafa verið þegar hún fékk tölvupóstinn um að hún væri komin í úrslit. Í lok keppninnar voru haldnir tónleikar þar sem þeir keppendur sem unnu stigu á svið. Ekki hafði verið tilkynnt fyrir fram í hvaða sæti söngvararnir lentu og það var ekki fyrr en lokatónleikunum sem Bryndís komst að því að hún hefði hreppt fyrsta sæti. ,,Þannig það kom mjög á óvart,” segir hún.

Framtíðin er svo að vissu leyti óskrifað blað en Bryndís mun stíga á svið með Sinfóníuhljómsveit Íslands í febrúar í Ævintýrinu um töfraflautuna.

 

Mynd með færslu
 Mynd: Bryndís Guðjónsdóttir

Tengdar fréttir

Klassísk tónlist

Draumsýn að syngja með Sinfóníunni í Eldborg