Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Drottning fékk undanþágu frá lögum um loftslagsmál

30.07.2021 - 11:33
epa08344673 A handout photo made available on 05 April 2020 by the Buckingham Palace of Queen Elizabeth II during her address to the nation and the Commonwealth in relation to the coronavirus epidemic. The address was recorded at Windsor Castle. 
**NOTE TO EDITORS: This handout photo may only be used in for editorial reporting purposes for the contemporaneous illustration of events, things or the people in the image or facts mentioned in the caption. Reuse of the picture may require further permission from the copyright holder.**  EPA-EFE/BUCKINGHAM PALACE  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - PA WIRE / BUCKINGHAM PALACE
Elísabet II drottning tryggði sér undanþágu frá skoskum lögum sem ætlað er að sporna gegn loftslagsbreytingum á sama tíma og Karl og Vilhjálmur prinsar berjast fyrir aðgerðum til draga úr útblæstri og vernda umhverfið. Krúnan nýtti sér löggjöf sem gerir skoskum yfirvöldum skylt að bera undir drottningu lagafrumvörp sem kunna að hafa áhrif á stöðu hennar og hagsmuni. Drottning er einn stærsti landeigandi í Skotlandi og sá eini sem er undanþeginn löggjöfinni.

Skoska þingið samþykkti fyrr á árinu lög um að skylda mætti landeigendur til að selja hluta úr landi þeirra til að leggja þar neðanjarðarleiðslur til húshitunar. Markmiðið með löggjöfinni er að draga úr notkun miðstöðvarkatla sem nota jarðefnaeldsneyti. Ráðamenn sögðu að lögin gögnuðust til að sporna gegn loftslagsbreytingum og til þess að tryggja framboð á hagkvæmri umhverfisvænni orku.

Breska blaðið The Guardian greindi frá því í vikunni að lögmenn drottningar hefðu beitt sér fyrir því að hún fengi undanþágu frá löggjöfinni meðan unnið var að lagasetningunni. Í skoska stjórnkerfinu er að finna ákvæði um samþykki krúnunnar. Það er sambærilegt ákvæði um samþykki drottningar sem verið hefur í enskri löggjöf um aldir og var tekið upp þaðan þegar Skotar fengu sjálfstjórn. Samkvæmt því verða stjórnvöld að bera fyrirhugaða löggjöf undir krúnuna sem getur knúið fram breytingar eða undanþágur. Það gerðist í þessu tilfelli.

Löggjöf breytt að beiðni drottningar

Aðstoðarmaður Nicolu Sturgeon, forsætisráðherra Skotlands, ritaði æðsta aðstoðarmanni drottningar bréf í janúar þar sem óskað var eftir samþykki drottningar á löggjöf um að taka mætti land eignarnámi til að leggja þar leiðslur fyrir umhverfisvæna hitaveitu í stað þeirrar sem nýtir jarðefnaeldsneyti. Frumvarpinu var breytt. Í stað þess að allir landeigendur í Skotlandi féllu undir lögin fékk drottning undanþágu, ein landeigenda. Drottning veitti þá samþykki sitt fyrir löggjöfinni. Breytingartillaga þess efnis var samþykkt á þinginu án þess að þingmenn væru upplýstir um að lögmenn drottningar hefðu fengið hana í gegn. 

The Guardian greinir frá því að skoska ríkisstjórnin neiti að birta gögn um málflutning lögmanna drottningar sem leiddi til breytinganna. Jafnframt kemur fram að 67 frumvörp hafi verið borin undir drottningu frá aldamótum en ekki fást upplýsingar um hversu oft það hafi leitt til breytinga.

Ógagnsætt og óvenjulegt í lýðræðisríki

BBC hefur eftir Willie Rennie, þingmanni Frjálslyndra demókrata á skoska þinginu, að þetta væri til marks um að lögum væri breytt á ógagnsæjan hátt án þess að almenningur fengi að vita hver áhrif drottningar væru. Það væri nokkuð sem fólk ætti ekki von á í lýðræðisríki. 

Talsmaður drottningar sagði við BBC að ráðgast væri við krúnuna um mál til að tryggja nákvæmni þeirra og að þau væru í samræmi við stöðu krúnunnar. Hann sagði þó að þetta breytti engu um lögin nema skosku stjórninni þætti ástæða til að veita undanþágu eða finna aðra útfærslu. Í þessu tilfelli hefðu lögin beinst að einkaeign og hagsmunum drottningar og því hefðu stjórnvöld ákveðið að takmarka áhrif þeirra á jarðir sem drottningin á sjálf.