
Óttast að Mjanmar verði næsti ofurdreifari veirunnar
Í kjölfar valdaráns hersins í febrúar hefur heilbrigðiskerfi Mjanmar hrakað mjög og bólusetningaráætlanir brostið. Aðeins um þrjú prósent íbúanna eru bólusettir og dauðsföllum hefur fjölgað gífurlega frá því í júlíbyrjun.
Þetta kemur fram í samantekt á vef norska ríkisútvarpsins.
Þar er haft eftir The Guardian að líkbrennslur í landinu hafi vart undan þrátt fyrir að standa langar vaktir, daga og nætur. Nú er hlutfall andláta af völdum sjúkdómsins orðið hærra en á Indlandi í Mjanmar, Malasíu og Indónesíu.
Tom Andrews erindreki Sameinuðu þjóðanna í landinu segir mikla hættu á ferðum, Delta-afbrigðið og önnur bráðsmitandi fari um sem eldur í sinu. Hann minnir á að um þriðjungur jarðarbúa eigi heimkynni sín skammt frá Mjanmar og því geti veiran dreifst hratt um, meðal annars til Kína.
Andrews minnir á að veiran fari ekki í manngreinarálit, smiti og felli fólk í valinn, hvert sem þjóðerni þess, hugmyndafræði eða stjórnmálaskoðanir eru.
Óttast er að ástandið í Mjanmar muni versna enn á næstu vikum og mánuðum að því er fram kemur í máli mannréttindahóps á vegum ASEAN, samtaka ríkja í Suðaustur-Asíu.
Traust á herstjórninni sé ekkert, enda hafi hún beitt heilbrigðisstarfsfólk mikilli hörku. Afar fáir íbúar Mjanmar fari í skimun, fáir bólusettir, skortur sé á súrefni og lyfjum sem geri ástandið afar alvarlegt.