Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ólafsvaka með næstum hefðbundnu sniði í ár

29.07.2021 - 00:12
Mynd með færslu
 Mynd: Bui Tyril
Ólafsvaka, þjóðhátíð Færeyinga, hófst með næstum hefðbundnu sniði í Þórshöfn í dag. Ólafsvaka er haldin hátíðleg dagana 28. og 29. júlí ár hvert. Á síðasta ári varð að draga mjög úr hátíðahöldum vegna kórónuveirufaraldursins.

Dagurinn 29. júlí er dánardagur Ólafs helga Haraldssonar Noregskonungs og er þjóðhátíðardagurinn kenndur við hann. Lögþingið er sett þann dag við hátíðlega athöfn.

Daginn áður er yfirleitt mikið um dýrðir, íþróttaviðburðir eru haldnir, listsýningar og tónleikar. Fólk nýtir hátíðina líka til að hitta aldavini og gera sér glaðan dag.

Á vef færeyska ríkisútvarpsins má sjá ljósmyndir frá hátíðinni. 

Nokkuð fjölmenni safnaðist saman við þinghúsið í Þórshöfn þegar vakan var sett og Heðin Mortensen bæjarstjóri kvaðst í samtali við færeyska miðilinn local.fo búast við hefðbundnum hátíðahöldum.

Staða kórónuveirufaraldursins í fyrra varð til þess að hátíðin var varla svipur hjá sjón.