Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Mjanmar leitar eftir erlendri aðstoð

29.07.2021 - 17:29
epa09336873 Myanmar men load an oxygen tank onto a truck at an oxygen factory in Yangon, Myanmar, 11 July 2021. Myanmar is facing a shortage of oxygen supplies to treat critical patients due to the rising number of cases of COVID-19 across the country.  EPA-EFE/STRINGER
Súrefni er farið að skorta á sjúkrahúsum í Mjanmar. Mynd: EPA-EFE - EPA
Yfirmaður herstjórnarinnar í Mjanmar biður erlendar þjóðir um hjálp til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar í landinu. Heilbrigðiskrefinu hefur hrakað mjög frá því að herinn rændi völdum í vetur.

Að sögn ríkisfjölmiðlanna í Mjanmar sagði Min Aung Hlang hershöfðingi í ávarpi að þörf væri á erlendri aðstoð til að ná tökum á útbreiðslu veirunnar og efla varnir gegn henni. Hann nefndi sérstaklega ríkin í ASEAN, Samtökum ríkja í Suðaustur-Asíu og aðrar vinveittar þjóðir, eins og hann komst að orði. 

Einungis 3,2 prósent mjanmörsku þjóðarinnar eru að fullu bólusett gegn kórónuveirunni. Herforingjarnir hyggjast biðja um fé úr COVID-19 sjóði ASEAN-ríkjanna til að þróa eigið bóluefni með aðstoð Rússa. Einnig áforma þeir að biðja um að fá sent bóluefni. Kínverjar gáfu Mjanmörum nýlega tvær milljónir skammta sem voru notaðir í fangelsum landsins, en ástandið þar er sagt slæmt. 

Sameinuðu þjóðirnar vöruðu við því í gær að Mjanmar gæti orðið næsti ofurdreifari kórónuveirunnar. Heilbrigðiskerfinu hefði hrakað til muna frá valdaráni hersins í febrúar og dauðsföllum fjölgað svo mjög að líkbrennslur hefðu vart undan. Bent er á að þriðjungur jarðarbúa eigi heima skammt frá Mjanmar og því geti veiran dreifst hratt, þar á meðal til Kína.