Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Heimsglugginn: Spenna í Túnis

Mynd: EPA-EFE / EPA
Mikil spenna ríkir í Túnis eftir að Kais Saied, forseti, rak forsætisráðherrann og sendi þingið í leyfi. Andstæðingar forsetans saka hann um valdarán og einræðistilburði. Forsetinn, sem var prófessor í stjórnlagarétti, vísar því á bug að hann hafi rænt völdum og segir þá sem haldi því fram þurfa að læra lögfræði sína betur.

Forsetinn virðist njóta verulegs stuðnings

Fréttaskýrendur segja ýmislegt benda til þess að forsetinn njóti verulegs stuðnings, hann var kjörinn fyrir tveimur árum og hafði þá enga reynslu af stjórnmálum og var ekki í neinum stjórnmálaflokki. Hann lagði höfuðáherslu á baráttu gegn landlægri spillingu og fékk 73% atkvæða. Þetta var til umfjöllunar í Heimsglugganum á Morgunvakt Rásar-1 í morgun.

Hagspá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins

Einnig var rætt um að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn telur að hagvöxtur í heiminum verði 6 prósent í ár en vaxandi munur sé á þróuðum ríkjum og þróunarríkjum. Sú misskipting haldi áfram á næsta ári en AGS spáir að hagvöxtur verði mun meiri í ríkum þróuðum löndum.

Norðurlandaófriðurinn mikli

Að loum var rætt um nýtt tveggja binda rit um Norðurlandaófriðinn mikla eftir danska sagnfræðinginn Dan H. Andersen sem hefur vakið nokkra athygli. Norðurlandaófriðurinn mikli var styrjöld sem stóð frá 1700-1721 á milli Svía og flestra granna þeirra sem sáu ofsjónum yfir veldi Svía. Þeir réðu þá löndum beggja megin Eystrasalts og einnig stórum hlutum í Póllandi og norðurhluta Þýskalands.

Grunnurinn að þeirri Norður-Evrópu sem við þekkjum

Dan H. Andersen heldur því fram að ósigur Svía í stríðinu hafi lagt grunninn að þeim heimi sem fólk lifi í núna. Rússar hafi fengið aðgang að sjó sem var forsenda þess að þeir urðu stórveldi. Hann segir að uppgang Prússlands megi einnig rekja til Norðurlandaófriðarins mikla.