Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fjölgar stöðugt á göngudeildinni

29.07.2021 - 13:26
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Freyr Arnarson - RÚV
Þrír hafa verið lagðir inn á sjúkrahús vegna kórónuveirusmits síðan í gær. Tveir eru á gjörgæsludeild. Alls liggja tíu inni á spítala þar sem að einn sjúklingur var útskrifaður í gær.

Runólfur Pálsson, yfirlæknir covid-göngudeildar segir í samtali við fréttastofu að munur sé á veikindum þeirra sem eru óbólusettir inni á spítalanum og þeim sem eru bólusettir. Þá fjölgi einstaklingum í umsjá deildarinnar stöðugt.

„Við erum með tvo sjúklinga sem hafa ekki fengið fulla bólusetningu og er annar þeirra alveg óbólusettur. Ástand þeirra er svipað og við sáum í fyrri bylgjum, svæsin covid-lungnabólga. Hinir eru með blöndu af COVID-19 og undirliggjandi sjúkdóm sem hafa áhrif á veikindaferli þeirra og ástand,“ sagði Runólfur.

118 smit - 67 utan sóttkvíar

118 ný kórónuveirusmit hafa greinst úr sýnum teknum í gær. 67 hinna smituðu voru utan sóttkvíar við greiningu. Nú eru 966 manns í eftirliti hjá covid-göngudeildinni og 112 börn. Runólfur sagði fyrr í morgun að þrír á göngudeildinni væru skráðir rauðir, það er með mikil einkenni, og fimmtán gulir með miðlungsmikil einkenni. Þeir sjúklingar verði frekar skoðaðir á næstu dögum.

Þá hefur fjölgað í hópi smitaðra starfsmanna spítalans. Nú eru þeir 21 talsins en voru 17 í gær. 35 eru í sóttkví heimafyrir. Smit hafa áhrif á störf fjölda deilda spítalans.

Í samtali við fréttastofu í gær sagði Már Kristjánsson yfirlæknir smitsjúkdómadeildar að á hverju degi væru smit að koma upp á 2-3 deildum innan spítalans. Þar á meðal á öldrunardeild, bráðamóttöku og á krabbameinsdeild.
 

Andri Magnús Eysteinsson