Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Ég geri ekki eðlilega mikið af lögum“

Mynd: Arnór Dan Árnason / Floni

„Ég geri ekki eðlilega mikið af lögum“

29.07.2021 - 16:00

Höfundar

„Þetta er ekki alveg plata heldur er þetta meira eins og gamla formið,“ segir tónlistarmaðurinn Floni sem nýverið gaf út plötuna Demotape 01. Hann lætur hertar takmarkanir ekki á sig fá þrátt fyrir að hafa stólað á útihátíðir helgarinnar.

Tónlistarmaðurinn Floni var að senda frá sér nýja plötu sem hann kallar Demotape 01. Platan er með heldur öðru sniði en hlustendur hafa vanist frá söngvaranum því hugmyndin er að raða saman þeim lögum sem hefðu ekki ratað inn á hans hefðbundnu plötu. Platan hefur því enga heildstæða hugsun og er því pressan mun minni. „Þetta eru bara skemmtilegar hugmyndir og góður fílingur,“ segir Floni í samtali við Þorstein Hreggviðsson í Popplandi á Rás 2.   

„Ég er með mikla pressu á sjálfum mér“

Floni er vanur að setja heilmikla pressu á sjálfan sig og þegar hann vinnur að plötu, þá vill hann að hún sé mjög góð. Þá séu þau ófá lögin sem ekki rata í hlustun vegna þess að þau passa ekki við heildarmyndina. „En það eru mörg mjög góð sem ég vil að fólk fái að heyra.“ 

Demotape 01 er fyrsta plata Flona þessarar gerðar en hann segir þetta vera smá seríu sem hann vilji byrja á. Hann semji hátt í 300-400 lög á ári og vilji deila þeim með hlustendum sínum. „Ég geri ekki eðlilega mikið af lögum og vil alveg að fólk fái að heyra eitthvað af því, ekki bara lögin sem fá að vera á plötunni.“ 

Getur ekki haft neinn hjá sér 

„Það er enginn sem tekur mig upp,“ segir Floni en hann er ávallt einn síns liðs þegar hann tekur upp lög. „Ég vil geta einbeitt mér og gera það sem best.“ Þá megi enginn vera inni í herberginu þegar hann er í básnum. Plötuna vinnur hann í samvinnu við lagahöfunda á borð við Young Nazareth, Mister sir, Tommy, Izleif og Jökul Breka.  

Heimsfaraldurinn hefur komið illa við tónlistarfólk og ekki bætir úr skák að verslunarmannahelgin fellur niður. „Ég var svolítið að stóla á þessa helgi,“ segir Floni en hans helsta tekjulind er tónlistin. Hann hefur þó ekki setið auðum höndum og vinnur að verkefnum sem ekki tengjast öll tónlist.  

Þrátt fyrir slæma vertíð ætlar Floni ekki að gefast upp núna. „Ég er búinn að lofa mér því að vera jákvæður,“ segir hann og bætir við að hann ætli ekki að leyfa ástandinu að ná til sín. „Ég er búinn að vera nógu sterkur, nógu lengi. Það þýðir ekkert að gefast upp núna.“ 

„Svo kemur bara eitthvað geðveikt!“ 

Rætt var við Flona í Popplandi á Rás 2. 

Tengdar fréttir

Tónlist

„Það er svo mikið af brengluðu dóti“

Tónlist

Frá mér – Flóni í Vikunni með Gísla Marteini

Tónlist

Alltaf verið feiminn og lítill í sér