Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Bárðarbunga að jafna sig eða að undirbúa næsta gos

Mynd með færslu
 Mynd: Tómas Guðbjartsson
Bárðarbunga hefur verið að þenjast út. Það gæti verið vegna kvikusöfnunar og bungan því að undirbúa næsta gos eða að hún er að jafna sig eftir Holuhraunsgosið. Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur telur líklegast að stórir jarðskjálftar í fyrrakvöld hafi orðið vegna landriss.

Þetta hefur Morgunblaðið eftir Páli í dag. Hann segir að þrýstingur hafi minnkað nægilega til að nú dragi eldstöðin að sér kviku.

Tveir stórir jarðskjálftar urðu í Bárðarbungu í fyrrakvöld, 3,9 og 4,5 að stærð samkvæmt tölum Veðurstofu Íslands. Fyrstu mælingar bentu þó til að þeir væru minni en bandaríska jarðfræðistofnunin taldi þá stærri.

Páll segir ekki auðvelt að gera upp á milli þessarra tveggja kenninga um hegðun Bárðarbungu en sé hún að undirbúa gos séu skjálftarnir til marks um það. Gos sé þó ekki væntanlegt á morgun eða hinn.

Það dró úr skjálftavirkni þegar Holuhraunsgosinu lauk 2015, hún færðist aftur í aukana um hríð en síðustu árin dró nokkuð úr henni. Einnig er fylgst vel með Grímsvötnum og Öræfajökli sem Páll segir brýnt.