Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Þau allra-heppnustu fá svalir í einangruninni

Mynd: Bragi Valgeirsson / RÚV
Um 400 manns dvelja nú í farsóttarhúsum í Reykjavík, meirihluti með covid. Forstöðumaðurinn segir einkenni geta versnað mjög hratt. Sumir bjarga sér í ísskápalausum herbergjum með því að hengja plastpoka út um glugga og geyma kælivörur þar. Tugir nýrra gesta koma inn á hótelin á hverjum degi.

3.000 smitaðir hafa dvalið á hótelunum

Hátt í þrjú þúsund manns hafa dvalið í farsóttarhúsum Rauða krossins, í sóttkví eða einangrun, frá byrjun faraldursins. Síðan 1. apríl hafa 8.000 ferðamenn verið þar í sóttkví. Fyrst fór að kræla á gestum fjórðu bylgjunnar eftir að skimun var hætt á landamærunum og svo fór boltinn að rúlla.

„Við erum að taka á móti 20, 30 einstaklingum í einangrun á dag. Allt upp í 40 á dag. Það fyllast rýmin hjá okkur mjög fljótt,” segir Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður farsóttarhúsanna. 

160 óbólusettir ferðamenn í sóttkví 

Nú eru um 160 óbólusettir ferðamenn í einu húsinu í fimm daga sóttkví. Gylfi telur líklegt að Hótel Barón verði fullt eftir nokkra daga, innan við viku eftir að það var tekið í notkun. Nú eru 240 gestir á hótelunum þremur, að ferðamönnunum undanskildum, þar af yfir 200 með covid og í einangrun. Flest eru með lítil eða engin einkenni við komu, en Gylfi segir það oft geta breyst mjög hratt. 
 
„Fólk sem er tiltölulega hresst að morgni er kannski orðið sárlasið að kvöldi. Í gær fóru frá okkur held ég einir tveir gestir á spítala. Þeir báru þess ekki merki fyrr um morguninn að það yrði raunin. Þannig að þetta gerist mjög hratt.”

Hvernig er geðheilsan hjá fólkinu sem er hjá þér? 

„Upp til hópa er hún ágæt. Auðvitað er það mikið sjokk fyrir fólk að greinast. Sérstaklega fólk sem er bólusett og hélt að það væri sloppið. En það sjokk bráir nú oftast af fólki á svona fyrstu tveimur dögunum. Síðan eru aðrir sem eiga erfitt með innilokunina og einangrunina. Og við reynum að sinna því fólki sérstaklega vel.”

Ef maður lítur hérna upp þá eru einhverjir með plastpoka hangandi út um gluggann hjá sér, maður sér þetta helst í útlöndum. Er þetta vegna þess að fólk er ekki með ísskápa? 

„Já, það eru því miður ekki ísskápar á öllum herbergjum. Eins og við þekkjum hér á Íslandi þá er lítið um ísskápa inni á hótelherbergjum. Og eins er það þannig hér á Íslandi að við erum ekki með svalir eins og erlendis, sem óneitanlega væri kostur fyrir þá sem eru í einangrun í tvær vikur að geta aðeins komist út á svalir. Við erum hérna nokkrar svalir sem eru þó nýttar fyrir þá sem eru í þeim herbergjum.”