Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Sakar Rússa um vélabrögð fyrir þingkosningarnar 2022

epa09371894 US President Joe Biden delivers remarks to Intelligence Community workforce members at the National Counter Terrorism Center in McLean, Virginia, USA, 27 July 2021.  EPA-EFE/Alex Edelman / POOL
 Mynd: EPA-EFE - Consolidated News Photos POOL
Joe Biden Bandaríkjaforseti sakar Vladimir Pútín forseta Rússland um að hyggjast dreifa röngum eða villandi upplýsingum til að hafa áhrif á þingkosningarnar vestra á næsta ári.

Bandaríkjaforseti lýsti jafnframt þungum áhyggjum yfir árásum tölvuþrjóta sem stunda það að komast yfir gögn og upplýsingar og krefja fórnarlömb sín um lausnargjald fyrir það. 

AFP-fréttaveitan greinir frá því að Biden lét þessi orð falla í heimsókn til Avril Haines, yfirmanns leyniþjónustustofnana Bandaríkjanna, í gær.

Hann var sérstaklega þungorður í garð Pútíns og sagði tilraunir ríkisstjórnar hans hreint brot á fullveldi Bandaríkjanna. Biden sagði Pútín leiða ríki sem ætti kjarnavopn en í raun ekki margt annað, sem gerði hann sérlega hættulegan.

Miðkjörtímabilskosningar til fulltrúadeildarinnar verða haldnar haustið 2022, þá verður kosið um öll sæti hennar auk þess sem þriðjungur öldungadeildarinnar verður kosinn þá.