Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Mjög alvarleg staða og einn óbólusettur á gjörgæslu

Kamilla Jósefsdóttir
 Mynd: Fréttir
Fimm covid-smitaðir voru lagðir inn á Landspítalann í gær, flestir með undirliggjandi sjúkdóma. Einn er á gjörgæslu, sá er óbólusettur. Að minnsta kosti 115 greindust innanlands í gær. Rýmum verður fjölgað á farsóttardeild í dag, farsóttarnefnd spítalans vill vera viðbúin fleiri innlögnum.

„Þetta er mjög alvarlegt, sérstaklega í ljósi þess að það er komið til gjörgæsluinnlagnar hjá óbólusettum einstaklingi. Við erum með ákveðið hlutfall óbólusettra í samfélaginu og þegar smitið er útbreitt er hætt við að þeir geti farið illa út úr þessu,“ segir Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis.

Kamilla segir að einstaklingurinn sem er á gjörgæslu sé á miðjum aldri, yngri en sextíu ára. Fimm voru lagðir inn á spítalann eftir klukkan fjögur í gær, alls liggja þá átta inni.

Hildur Helgadóttir, verkefnisstjóri farsóttarnefndar Landspítalans, segir að flestir séu með einhverja áhættuþætti eða undirliggjandi sjúkdóma. „Það leggst enginn inn á spítala nema vera talsvert veikur. En það eru ýmiss konar einkenni, það er í öndunarfærum og meltingarvegi og almenn veikindi.“

Fjölga rýmum á farsóttardeild

89 af þessum 115 sem er búið að greina frá í gær voru utan sóttkvíar, jafnmargir fullbólusettir. Veirufræðideildin annar í mesta lagi um fimm þúsund sýnum á sólarhring en 1450 sýni til viðbótar voru tekin í gær. Tölurnar verða uppfærðar eftir hádegi þegar það er búið að greina öll sýnin. „Við búumst við að vera á svipuðu róli og í gær,“ segir Kamilla. Þá greindust 123 smitaðir. 

Hildur segir að miðað við fjöldann sem er í einangrun megi búast við fleiri innlögnum. Það tekur nokkra daga fyrir einkennin að koma fram frá því að fólk smitast. Rúmlega tuttugu eru undir eftirliti og flokkaðir gulir, sem þýðir að líðan þeirra fer versnandi. „Það liggja flestir á smitsjúkdómadeildinni, það er verið að breyta henni í farsóttardeild í dag, fjölga rýmunum, við verðum að búa okkur undir að þetta haldi áfram,“ segir Hildur.

Örvunarskammtur gefinn fljótlega

Embætti sóttvarnalæknis áformar að skila minnisblaði í dag þar sem er mælt með örvunarbólusetningu, það er að segja auka bóluefna-skammti, fyrir þá sem fengu bóluefnið frá Jansen. Það eru nærri 40% af þeim sem eru bólusettir, segir Kamilla. En hvenær er búist við að fólk fái örvunarskammtinn? „Það gæti orðið fljótlega. Við teljum að það að margir sem eru Jansen-bólusettir sem eru að smitast núna helgist fyrst og fremst af aldursdreifingunni. Jansen hins vegar er ekki betra en tveggja skammta bóluefnin. Þess vegna viljum við efla vörnina í samfélaginu.“

Innlögnum fjölgar, þið voruð að vona að bólusetningin myndi virka gegn alvarlegum einkennum, afsanna þessar innlagnir það? „Nei, þær gera það ekki enn sem komið er. Okkur vantar nákvæma greiningu á því hvort þetta eru einstaklingar sem hafa verið bólusettir, hversu langt er síðan þeir voru bólusettir, eru þeir með undirliggjandi sjúkdóma sem gera líklegt að þeirra bólusetning takist síður en annarra. Þetta eru upplýsingar sem við stefnum á að fá frá Landspítalanum og halda áfram að fylgjast með til þess að hjálpa okkur að meta áhrif bólusetninganna,“ segir Kamilla jafnframt.