Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Maður sér gluggann á leiðinni að skellast aftur“

Mynd: Aðsend / Anna Gunndís Guðmundsdóttir

„Maður sér gluggann á leiðinni að skellast aftur“

28.07.2021 - 14:57

Höfundar

„Ég held að fólk þyrsti í menningu og fá aðeins að hugsa um eitthvað annað,“ segir Anna Gunndís Guðmundsdóttir leikkona. Til stendur að flytja leiksýninguna Halastjörnu í Hlöðunni á Akureyri um helgina. Þar verður fjallað um bergmálshella internetsins og stöðuga þörf manneskjunnar fyrir viðurkenningu.

Félagsleg einangrun í nútíma tæknisamfélagi, stöðug þörf manneskjunnar til að öðlast viðurkenningu og hugmyndir sem æða stjórnlausar áfram. Svona er leiksýningunni Halastjörnu lýst af listamönnunum sem standa að baki henni. Sýningin er loksins á leið á fjalirnar eftir talsverða seinkun vegna samkomutakmarkana undanfarna mánuði.

Spennandi að setja upp leiksýningu að sumri til

„Þetta er búið að vera mjög löng fæðing, við höfum oft ætlað okkur og svo þurft að skella í lás,“ segir Anna Gunndís í samtali við Guðmund Pálsson og Hafdísi Helgu Helgadóttur í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.  

Hún segir að það sé ekki algengt að leikrit sé sett upp um mitt sumar en þau hafi séð þennan veirulausa glugga og ákveðið að láta til skarar skríða. Þau hafi fengið styrk frá Leiklistarráði til að setja sýninguna upp á Akureyri, í Hlöðunni í Litla-Garði. „Það er spennandi að setja hana upp núna, en maður sér gluggann á leiðinni að skellast aftur í andlitið á okkur.“ 

Lítið og fallegt nálægðarleikhús  

Anna Gunndís segir að þau hafi lagt upp með tíu sýningar en í ljósi aðstæðna ákveðið að byrja einungis á tveimur helgum. Vegna eins metra reglunnar hafi sætum verið fækkað úr 50 í 35. „Ef það fer í tveggja metra þá verðum við bara með 15 áhorfendur,“ segir Anna. Þetta verði þá bara lítið og fallegt nálægðarleikhús. 

Erfitt sé að fá fólk í leikhús á sumrin enda hafi blessunarlega verið stórkostlegt veður fyrir norðan. „Þetta er eins og að vera á Tenerife.“ Nú sé þó aðeins farið að rigna og því auðveldara að draga fólk að sviðinu.  

„Ég held að fólk þrái að komast í leikhús,“ segir Anna Gunndís og bætir við að fólk þyrsti í menningu og að fá að hugsa um eitthvað annað. Þau ætli þó ekki að fara af stað með sýningu hvað sem á gengur. „Veiran er úti um allt og við verðum að spila með henni,“ segir hún.  

Með aðalhlutverk í Halastjörnu fara hjónin Anna Gunndís Guðmundsdóttir og Einar Aðalsteinsson, Anna María Tómasdóttir leikstýrir. Sýningar verða næstu tvær helgar og má nálgast miða á tix.is. 

Rætt var við Önnu Gunndísi Guðmundsdóttur í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.  

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend - Einar Aðalsteinsson
Einar Aðalsteinsson leikur á móti Önnu Gunndísi í Halastjörnu

Tengdar fréttir

Leiklist

„Það er alveg gredda í þessu“

Leiklist

Kærleikur Pollýönnu aldrei átt betur við

Leiklist

Hollt að kunna að vera leikhússgestur heima hjá sér

Leiklist

„Það var ég sem hataði mig“